133. löggjafarþing — 72. fundur,  15. feb. 2007.

samgönguáætlun fyrir árin 2007--2018.

575. mál
[15:19]
Hlusta

Kristján L. Möller (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Fyrir það fyrsta vil ég taka undir margt af því sem hv. þingmaður sagði í ágætri ræðu um þetta mál. Ég hygg að það sé ekki stór ágreiningsmunur á milli okkar hvað það varðar. Ég tók sérstaklega eftir því og fagnaði tali hans um stóriðjuhlé, á móti möguleikanum á stórátaki í samgöngumálum sem er það sama og formaður Samfylkingarinnar hefur verið að boða á fjölmörgum fundum úti um allt land. Ég tek sérstaklega undir það og fagna því að hv. þingmaður er á sömu skoðun og við hvað það varðar.

Ég ætla ekki að fara að munnhöggvast við hv. þingmann út af jarðgöngum en engu að síður verð ég einu sinni enn, og ég vona að það sé í síðasta skiptið, að leiðrétta það sem hann segir um Héðinsfjarðargöng og þá legu sem þar er. Sú leið sem var valin er sú besta sem hægt var að fara. Það þarf enginn að efast um það að Siglfirðingar eða þeir sem búa á þessu svæði og hafa barist fyrir Héðinsfjarðargöngum hafi ekki horft á það að tengja Siglufjörð inn í Fljót og fara þá leið. Ókosturinn var sá að í Fljótum var farið upp í 300 meta hæð yfir sjávarmáli, með gangamunna þar, og þeir sem hafa verið í Fljótum í vondum veðrum og stundum ekki einu sinni séð rúðuþurrkurnar vita hvað vond veður eru þar og það var því ekki fýsileg leið. Þess vegna var sú leið valin sem farin var og hún var sú eina rétta. Og ég vænti þess að hv. þingmaður muni komast á þá skoðun og ég ætla að nota tækifærið og bjóða honum norður árið 2009 þegar við fögnum og opnum Héðinsfjarðargöng með þeirri leið sem valin var. Jafnframt ætla ég mjög að fagna þeirri leið sem valin var í Bolungarvík, þar sem var björgulegt lífið og er, að taka þá leið Ós – Skarfasker, fara þá leið sem eru 5 kílómetra göng í staðinn fyrir þær slaufur sem hugsaðar voru í byrjun inn í Óshlíðina eins og lagt var af stað með í byrjun. Og þar vorum við sammála, ég og hv. þingmaður, að það væri ófær leið, sú leið er betri sem hér er valin og ég spáði því strax að hún yrði valin og ég samfagna því. En ég vona að ég og hv. þingmaður séum orðnir sammála um þessi ástfóstur okkur.