133. löggjafarþing — 72. fundur,  15. feb. 2007.

samgönguáætlun fyrir árin 2007--2018.

575. mál
[15:43]
Hlusta

Björgvin G. Sigurðsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er fagnaðarefni að sjá stjórnarliða hér í umræðum um samgönguáætlun. Sérstakt áhyggjuefni hlýtur að vera fyrir okkur öll þetta annars algjöra áhugaleysi stjórnarliða sem speglast í mælendaskránni. Fyrir tveimur árum voru hér nokkuð fjörugar umræður um þessa áætlun, núna telst það til tíðinda að einn stjórnarliði, formaður þingflokks sjálfstæðismanna, skuli skjótast inn í umræðuna. Það vekur athygli og ég skora á þingmennina að beita sér í þessu mikilvæga máli og taka þátt í umræðunni.

Hv. þingmaður nefndi að vegna flutninga á þjóðvegum yrðum við að styrkja vegina og bæta vegakerfið. Þær raddir hafa heyrst, eins og fram kom í máli hv. þm. Kristins H. Gunnarssonar áðan, að það sé nóg að fara aðrar leiðir í breikkun, 2+1 vegi o.s.frv., ekki þurfi að fara í fulla fjórföldun eða 2+2 vegi á þessum þyngstu umferðaræðum eins og Suðurlandsvegi og Vesturlandsvegi.

Ég nefni það sem dæmi um mikilvægi þess að fara í tvöföldun veganna að umferð um Hellisheiði hefur aukist um nánast 100% á 10 árum, 10% á milli áranna 2005 og 2006. Sem dæmi má nefna að meðaldagsumferðin við Sandskeið er núna 8.200 bílar, um Geitháls 9.500, undir Ingólfsfjalli á milli Selfoss og Hveragerðis 7.000 bílar á dag. Gangi þessi 10% aukning eftir næstu fjögur árin verður meðaldagsumferðin yfir Hellisheiði t.d. orðin 8.500 bílar, um Geitháls 12.500, Sandskeið 10.000, Ingólfsfjall 9.200, en topparnir náttúrlega miklu meiri. Það er engin spurning í mínum huga að það þarf að ráðast í þá brýnu framkvæmd að tvöfalda veginn núna, það er varanleg samgöngulausn þar.

Ég vildi fá fram viðhorf hv. formanns þingflokks sjálfstæðismanna til þessa máls þar sem mjög misvísandi raddir hafa heyrst úr röðum stjórnarliða um mikilvægi þess að ráðast í þessa framkvæmd en ekki einhverja aðra og billegri leið.