133. löggjafarþing — 72. fundur,  15. feb. 2007.

samgönguáætlun fyrir árin 2007--2018.

575. mál
[16:31]
Hlusta

samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni fyrir snöfurmannlega ræðu eins og hans var von og vísa. Aðeins vegna vinnubragða. Það er hárrétt að ég var í starfshópi sem vann 1990 að undirbúningi vegáætlunar þá. Breytingin á lögunum var m.a. byggð á þeirri reynslu sem ég upplifði í því starfi þar sem hópur stjórnmálamanna settist niður til að reyna að ná samkomulagi, þverpólitísku samkomulagi um landið allt, í þeim tilgangi að raða niður framkvæmdum í samgöngumálum. Reynsla mín var sú að þetta væri ekki skynsamlegur kostur heldur þyrftum við að vinna þetta fyrst og fremst á þeim forsendum að meta aðstæður, meta þörf, meta umferð, meta ástand vega o.s.frv. og vinna þetta þannig upp í hendurnar á stjórnmálamönnunum. Þess vegna fór ég þá leið að flytja frumvarp sem gerði ráð fyrir því að samræma áætlanir í hafna-, flug- og vegamálum og niðurstaðan er sú sem við höfum verið að vinna með núna síðustu árin. Ég tel að þetta sé skynsamlegri kostur en það fyrirkomulag sem áður var.

Einkavæðingardekur, sagði hv. þingmaður, sem stóð fremstur í flokki fyrir því að við fórum í einkaframkvæmd undir Hvalfjarðargöng, sem var mjög gott mál, og ég hef hælt hv. þingmanni fyrir að hafa haft forgöngu um innleiðingu einkaframkvæmdar í jarðgangagerð á Íslandi. Ég held að við eigum miklu meira sameiginlegt í því við hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon en hið gagnstæða þannig að ég vil vekja athygli á þessu. Að síðustu eru stóraukin framlög samkvæmt áætluninni í tengivegi.