133. löggjafarþing — 73. fundur,  19. feb. 2007.

samgönguáætlun fyrir árin 2007--2010.

574. mál
[16:02]
Hlusta

samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Hv. þingmaður reynir náttúrlega að gera málið tortryggilegt og gengur út frá röngum forsendum. Það stendur hvergi í þessu samkomulagi Spalar og Vegagerðarinnar að til standi að nýta fjármuni vegna innheimtu af gangagjaldinu til framkvæmda við Sundabraut. Ég veit ekki hvar þingmaðurinn hefur fengið þær hugmyndir. Þetta er einn allsherjarmisskilningur hjá hv. þingmanni.

Þetta samkomulag er gert til þess að greiða fyrir framkvæmdum og undirbúningi vegna breikkunar jarðganganna, framkvæmdum á veginum. Það er mat forsvarsmanna Spalar að það sé mjög mikilvægt og skipti mjög miklu máli og Vegagerðin telur að það skipti mjög miklu máli að nýta sér þekkingu og reynslu forsvarsmanna Spalar til þess að taka þátt í þessu verkefni á þeim nótum sem samningurinn gerir ráð fyrir.