133. löggjafarþing — 73. fundur,  19. feb. 2007.

samgönguáætlun fyrir árin 2007--2010.

574. mál
[16:45]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Nú deila Framsóknarflokkurinn og Vinstri hreyfingin – grænt framboð ekki sömu skoðun á uppbyggingu í stóriðju. Við höfum meira að segja lagt fram tillögu á Alþingi um að setja stopp á frekari stóriðju, bæði af umhverfisáhrifum og einnig vegna þess að efnahagsástandið þolir það ekki. En það má Framsóknarflokkurinn eiga að hann heldur sig blint og afdráttarlaust við sína stóriðjustefnu og er ekkert að hlaupa frá henni. Bara gott eitt með það, álver á Húsavík og virkjanir í jökulánum eru aðalbaráttumál framsóknarmanna í Skagafirði, síðan nýtt álver í Helguvík og stækkun í Straumsvík. Framsóknarflokkurinn er mjög afdráttarlaus í að það skuli virkjað og það skuli koma álver í hvern fjörð.

Það kemur einhvers staðar niður og endurspeglast í niðurskurði á vegaframkvæmdum á Norðausturlandi og Vestfjörðum vegna stóriðjuframkvæmda einmitt í ár. Ég studdi ekki stækkun á álverinu á Grundartanga þegar það var rætt á Alþingi. Ég taldi að við værum komin með nóg. Ég studdi ekki að ráðist yrði í að virkja Norðlingaölduveitu, eins og framsóknarmenn vildu, fyrir álverið á Grundartanga. Ég gerði það ekki. Hins vegar er ég ekki aðili að einhverri afgreiðslu í Reykjavík en mér finnst að þarna megi líka setja stopp. Mín skoðun er sú að það eigi að setja stopp, yfirfara þessi mál og setja bara fullkomið stopp. Framsóknarmenn eru aftur á móti á hinni skoðuninni, þetta skal allt saman keyrt áfram.