133. löggjafarþing — 73. fundur,  19. feb. 2007.

samgönguáætlun fyrir árin 2007--2010.

574. mál
[17:38]
Hlusta

Kjartan Ólafsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Það kvað við nokkuð annan tón hjá hv. þingmanni nú í ræðu um skammtímaáætlun en langtímaáætlun. Hins vegar kemur fram hjá hv. þingmanni að honum finnst að ekki gangi nóg með að loka hringveginum, og það má til sanns vegar færa, að meiri fjármuni vanti til áætlunarinnar.

Mig langar að spyrja hv. þm. Steingrím J. Sigfússon hvernig honum lítist á að fá nýja fjármuni annars staðar frá sem yrðu lagðir til samgöngumála og þá til nýrra framkvæmda sem ekki eru á áætluninni núna, eins og hún lítur út hér fyrir þinginu, þ.e. að fyrirtækinu Norðurvegi ehf. yrði heimilað að leggja veg um Kjöl sem mundi skapa þá möguleika að stytting yrði á leiðinni frá Reykjavík til Akureyrar, gríðarlega mikil stytting milli byggðarlaganna á Suður- og Norðurlandi þar sem augljóslega gætu skapast ný tækifæri og möguleikar varðandi ferðaþjónustu. Slíkur vegur yrði auðvitað fjármagnaður á markaðnum og síðan yrði hann greiddur til baka líkt og Spölur gerði með Hvalfjarðargöngin. Mig langar að spyrja hv. þingmann hvernig honum lítist á slíka framkvæmd og hvort við ættum ekki að taka hana inn í þá samgönguáætlun sem hér liggur fyrir.