133. löggjafarþing — 74. fundur,  20. feb. 2007.

stofnun hlutafélags um Orkubú Vestfjarða og Rafmagnsveitur ríkisins.

570. mál
[13:44]
Hlusta

fjármálaráðherra (Árni M. Mathiesen) (S):

Frú forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breyting á lögum nr. 40/2001, um stofnun hlutafélags um Orkubú Vestfjarða, með síðari breytingum, og lögum nr. 25/2006, um stofnun hlutafélags um Rafmagnsveitur ríkisins, með síðari breytingum.

Þann 9. desember sl. voru samþykktar breytingar á lögum á orkusviði sem fólu m.a. í sér að fyrirsvar ríkisins á eignarhlutum í Hitaveitu Suðurnesja hf., Orkubúi Vestfjarða hf. og Rafmagnsveitum ríkisins hf. fluttist frá iðnaðarráðherra til fjármálaráðherra.

Í frumvarpinu var auk þess gert ráð fyrir að eignarhlutur íslenska ríkisins, annars vegar í Orkubúi Vestfjarða hf. og hins vegar í Rafmagnsveitum ríkisins hf., yrði lagður til Landsvirkjunar sem fara átti með eignarhlutinn.

Við meðferð málsins hér á Alþingi komu fram athugasemdir, m.a. frá Samkeppniseftirliti, um aðkomu Landsvirkjunar að orkusölufyrirtæki Landsvirkjunar, Rafmagnsveitnanna og Orkubúsins. Jafnframt urðu hér á Alþingi talsverðar umræður um hvaða áhrif slík samstaða hefði á íslenska orkumarkaðinn til langframa.

Við afgreiðslu málsins var tekin sú ákvörðun að samþykkja þau ákvæði frumvarpsins sem brýnt var að afgreiða fyrir áramót en fresta umræðu um önnur ákvæði og fella þau brott úr frumvarpinu á meðan þau sættu frekari skoðun. Í frumvarpi því sem hér er lagt fram hefur verið tekið tillit til þeirra athugasemda sem fram komu við meðferð fyrra frumvarps þannig að ná megi fram hagræðingu í rekstri fyrirtækjanna með því að halda utan um eignarhluta ríkisins í raforkufyrirtækjunum í einu öflugu fyrirtæki jafnframt því sem sett eru skilyrði sem skilyrði sem miða að því að tryggja að tilfærsla eignarhalds á Orkubúi Vestfjarða hf. og Rafmagnsveitum ríkisins hindri ekki virka samkeppni á mörkuðum fyrir framleiðslu og endursölu raforku.

Í fyrsta lagi er lagt til að eignarhlutur ríkisins í Orkubúi Vestfjarða hf. og Rafmagnsveitum ríkisins hf. verði fyrir 1. júlí 2007 lagður til Landsvirkjunar sem viðbótareigandaframlag ríkissjóðs í Landsvirkjun. Með slíkri breytingu verða félögin dótturfyrirtæki Landsvirkjunar sem fer eftir það með eignarhlut ríkisins í þeim.

Í öðru lagi er lagt til að starfsemi Orkubús Vestfjarða hf. og Rafmagnsveitna ríkisins hf. sem tengist framleiðslu og sölu raforku skuli falin sjálfstæðu félagi sem einungis hefur þá starfsemi með höndum. Félögunum er heimilt samkvæmt frumvarpinu að reka slíkt orkusölufélag í samvinnu sín á milli eða í samvinnu aðila á markaði, aðra en Landsvirkjun sem í dag hefur markaðsráðandi stöðu í framleiðslu og sölu raforku. Um eignaraðild annarra að sölufélaginu eða samruna Orkubúsins og Rafmagnsveitnanna við önnur fyrirtæki fer þó samkvæmt samkeppnislögum.

Í þriðja lagi felur frumvarpið í sér að orkusölufélagið verði rekið sem sérstakur lögaðili og að tryggður verði fullur rekstrarlegur og stjórnunarlegur aðskilnaður milli slíks orkusölufélags og Landsvirkjunar eða annarra félaga innan samstæðu Landsvirkjunar.

Í fjórða lagi er lagt til að fjármálaráðherra tilnefni alla stjórnarmenn og varastjórnarmenn orkusölufélagsins beint og að stjórnarmönnum og starfsmönnum Landsvirkjunar og annarra félaga innan samstæðu Landsvirkjunar sé ekki heimil seta í stjórn þess.

Í fimmta lagi er lagt til að öll viðskipti orkusölufélagsins við Landsvirkjun og önnur félög innan sömu samstæðu skuli byggð á sömu sjónarmiðum og viðskipti milli óskyldra aðila. Ákvæði samkeppnislaga gilda einnig um þessa starfsemi, þar á meðal 10. gr. núgildandi laga um bann við hvers konar samvinnu eða samstilltum aðgerðum milli orkusölufélagsins og Landsvirkjunar eða annarra félaga innan samstæðunnar. Gert er ráð fyrir að lögin verði endurskoðuð fyrir árslok 2009 í ljósi samkeppniaðstæðna á þeim tíma.

Virðulegi forseti. Þetta eru meginatriði frumvarpsins. Ég legg til að því verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og hv. iðnaðarnefndar.