133. löggjafarþing — 74. fundur,  20. feb. 2007.

stofnun hlutafélags um Orkubú Vestfjarða og Rafmagnsveitur ríkisins.

570. mál
[14:15]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg):

Frú forseti. Hér er á ferðinni enn eitt frumvarpið í þeirri vegferð sem núverandi ríkisstjórn hóf fyrir nokkru síðan með iðnaðarráðherra Framsóknarflokksins og hugmyndafræðingi í stóriðjumálum, Valgerði Sverrisdóttur, sem leiddi ríkisstjórnina í markaðsvæðingu og einkavæðingu raforkukerfisins.

Ég minnist þess, frú forseti, þegar þáverandi iðnaðarráðherra Framsóknarflokksins lýsti því yfir, og hefur reyndar ítrekað lýst því yfir á Alþingi, hversu glöð hún hafi verið með markaðsvæðingu raforkukerfisins. Hún hefur ítrekað lýst því yfir að eitt farsælasta verk sem hún og Framsóknarflokkurinn hafi staðið að á Alþingi væri markaðsvæðing raforkukerfisins. Nú fáum við eitt frumvarpið enn sem lýtur að því sama. Þetta er reyndar líka mjög nátengt stóriðju- og virkjunarstefnunni því að það frumvarp sem hér er, um að leggja Orkubú Vestfjarða og Rafmagnsveitur ríkisins í Landsvirkjun til að styrkja eiginfjárstöðu Landsvirkjunar, er náttúrlega beint tilkomið vegna hinnar erfiðu fjárhagsstöðu sem Landsvirkjun er í eftir m.a. virkjunarframkvæmdirnar við Kárahnjúka. Þess vegna er nú leitað allra leiða. Enginn má undan líta, allir verða að leggja í það púkk að styrkja eiginfjárstöðu Landsvirkjunar og taka þátt í að borga stóriðjutollinn, virkjunaræðistollinn sem hefur verið innleiddur hér, m.a. undir forustu iðnaðarráðherra Framsóknarflokksins.

Við erum með annað frumvarp sem kom á Alþingi fyrir skömmu síðan sem miðaði að því nákvæmlega sama, að afhenda Landsvirkjun land til eignar og réttindi innan þjóðlendna. Þjóðlendumálið er mjög heitt og umdeilt mál. Það var samþykkt og pólitísk sátt um það á Alþingi á sínum tíma, að land sem var sannarlega utan séreignarréttar skyldi flokkast sem þjóðlendur. Í því hefur síðan verið unnið og um það verið deilt, deilt hefur verið um framgöngu ríkisins í þeim málum, hvort ríkið hafi farið þar í fyllsta máta að lögum í framgöngu sinni með þjóðlendukröfum. Um þessi mál, hvernig sú staða er, eru mjög skiptar skoðanir.

Engum datt í hug að ætlunin væri að fara að afhenda einkaaðila land út úr þjóðlendunni eftir að búið var að úrskurða það þjóðlendu. Mér hefði alla vega ekki dottið það í hug þegar verið var að fjalla um lagasetninguna. En nauðsyn brýtur lög hvað varðar Landsvirkjun og fjármögnun á orkuverum fyrir álbræðslu því komið er á Alþingi frumvarp sem ríkisstjórnin flytur um að afhenda Landsvirkjun land til eignar innan þjóðlendna. Landsvirkjun sem síðan er komin á markaðs- og sölulista ef núverandi ríkisstjórn fær að fylgja sínum áformum áfram, sem hún hefur kynnt á undanförnum árum.

Nú skulu orkuverin og orkuveiturnar, eins og Orkubú Vestfjarða og Rafmagnsveitur ríkisins, fara sömu leið. Einu rökin, sem tilgreind eru fyrir gjörningnum, eru að nauðsyn beri að styrkja eiginfjárstöðu Landsvirkjunar. Þess vegna skulu líka íbúar Vestfjarða, sem áttu Orkubú Vestfjarða til skamms tíma og voru stoltir af. Orkubúið var aflgjafi framfara, nýrrar sóknar í atvinnumálum. Orkubúið skóp grundvöll fyrir búsetu og fjölbreytt atvinnulíf, en með aðgerðum ríkisstjórnarinnar var Orkubúið knúið af Vestfirðingum. Þeim var stillt upp við vegg vegna þess að stefna núverandi ríkisstjórnar hafði þróast á þann veg að sveitarfélögin á Vestfjörðum voru komin í mikinn fjárhagsvanda vegna stefnunnar sem ríkisstjórnin stendur fyrir. Þá var þeim boðið upp á að skuldajafna eða greiða niður hluta af skuldum sínum með því að afhenda ríkinu Orkubú Vestfjarða.

Frú forseti. Ég heyri að hæstv. fjármálaráðherra er býsna lítið upplýstur um hvaða mál hann er að flytja. Fram kom í máli hans áðan að hann leit á það sem nokkurs konar skylduverkefni að lesa þetta upp. Ég er hér með gögn, bréfaskriftir og samningagerðir, frá þeim tíma þegar Orkubú Vestfjarða var haft af Vestfirðingum. En þeim var lofað ýmsu á móti. Þeim var lofað því að Orkubúið skyldi ávallt vera undir stjórn heimamanna og skyldi vera sjálfstætt fyrirtæki og starfa fyrir heimamenn á Vestfjörðum. Ég er með það í þessum plöggum. Nú eru örlög Orkubús Vestfjarða að verða sett í púkk til þess að bæta og styrkja eiginfjárstöðu Landsvirkjunar vegna allt annarra framkvæmda, framkvæmda sem Vestfirðingar eru heldur betur búnir að súpa seyðið af.

Þenslan sem hefur verið í þjóðfélaginu út af stóriðjuframkvæmdunum, m.a. út af Kárahnjúkavirkjun, varð til þess að vegaframkvæmdum á Vestfjörðum hefur verið frestað trekk í trekk. Ekki vegna þenslu á Vestfjörðum. Nei. Vegna nákvæmlega sömu ástæðu og hér er verið að krefjast, að Vestfirðingar afhendi endanlega orkubú sitt í stóriðjutollinn, í að bæta fjárhagsstöðu Landsvirkjunar vegna stóriðjuframkvæmdanna sem hafa verið að setja efnahagslífið að öðru leyti líka á hlið.

Til okkar komu á dögunum forsvarsmenn sveitarfélaganna á Vestfjörðum, okkar þingmanna Norðvesturkjördæmisins, og tjáðu okkur að fjárhagsstaða sveitarfélaganna væri áfram slæm. Rekstrargrunnur þeirra hefði í sjálfu sér ekkert breyst. Þó að þeir misstu orkubúið sitt upp í skuldir breyttist grunnurinn fyrir fjárhagsstöðu sveitarfélaganna sáralítið eða ekki neitt. Nú er því áfram staðan sú að þeir vilja, réttilega, að skuldum, t.d. vegna félagslega íbúðalánakerfisins sem ekki var allt gert upp og sveitarfélögin standa uppi með, verði létt af þeim. En nú hafa þeir ekkert orkubú til að selja. Nú hefur ríkið ekkert orkubú til að taka af þeim eins og framsóknarmenn gerðu á sínum tíma. Framsóknarmenn margkeyptu það og settu þá margoft í snöruna. Ef þetta hefði haft einhvern tilgang. Nei. Markaðsvæðingin sem iðnaðarráðherra Framsóknarflokksins fagnaði og sagði að væri það besta sem hún hefði gert á sínum ráðherraferli.

Ég er með nýjasta Bændablaðið, frú forseti, sem ég held að ætti að vera skyldulesning a.m.k. fyrir forustumenn Framsóknarflokksins. Hæstv. landbúnaðarráðherra hefur vonandi lesið þetta og (Gripið fram í.) þá ætti hann að sjá á hve rangri braut þeir eru. Hér stendur í grein, með leyfi forseta:

„Tilskipun um raforkumarkaðinn“ — í Evrópusambandinu sem við tókum upp — „er misheppnuð. Tvær skýrslur sérfræðinga samdóma um að breytingar á evrópskum raforkumarkaði hafi leitt til verðhækkana og fákeppni. — Íslensku raforkulögin byggjast á þessari tilskipun.“ En markaðurinn er miklu minni.

Hér segir einmitt, með leyfi forseta:

„Um mitt ár 2003 tóku gildi ný raforkulög sem hafa verið allumdeild frá því þau voru sett. Helsta röksemdin fyrir setningu þessara laga var að Ísland yrði að uppfylla skilyrði tilskipunar Evrópusambandsins um samkeppni á raforkumarkaði.“ — Þetta er reyndar ekki rétt. Ísland gat sótt um undanþágu en Framsóknarflokkurinn, iðnaðarráðherra eða forustumenn ríkisstjórnarinnar vildu það ekki. — ,,Lögin höfðu í för með sér róttækar breytingar á skipulagi íslenskra orkumála. Einokun Landsvirkjunar á raforkuframleiðslu var aflétt og skilið á milli rekstrarþátta í orkukerfinu. Tilgangurinn var að koma á samkeppni í orkugeiranum sem átti að leiða til lægra orkuverðs.

Fyrstu áhrifin af breytingunum voru ekki beinlínis þau sem að var stefnt. Það fyrsta sem almenningur varð var við voru þvert á móti töluverðar hækkanir á orkuverði. Það átti þó ekki við alls staðar en á landsbyggðinni varð þetta víða raunin. Þetta vakti umræður um það hvort ástæða hefði verið til að setja þessi lög. Var því meðal annars haldið fram að Íslendingar væru stundum kaþólskari en páfinn í því að innleiða tilskipanir ESB, tilskipanir sem lönd með fulla aðild að ESB væru mun svifaseinni við að setja inn í sín lög.“

Í þessari ítarlegu og góðu grein er síðan fjallað um skýrslur sem voru unnar fyrir evrópska raforkumarkaðinn sem byggður var á tilskipununum. Þar er ítarlega rakið að þetta var gert á fölskum forsendum, röngum forsendum og að árangurinn hafi verið allt annar en búist var við. Reyndar vöruðu margir við þessu en markaðshyggjan og einokunarhyggjan, m.a. í raforkukerfinu, byrgði forustumönnum íslenskrar ríkisstjórnar sýn, Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks, alla vega lögðu þeir sig mjög viljugir undir það að innleiða þetta hér.

Í framhaldi af þessu er svo viðtal við ferðaþjónustubændur. Hér stendur, með leyfi forseta:

„Ferðaþjónustubændur uggandi vegna hækkandi raforkuverðs.

Útgjöld vegna raforku hafa hækkað mikið eftir að ný raforkulög tóku gildi og var málið rætt á fundi í Félagi ferðaþjónustubænda nýverið, en margir félagsmanna hafa orðið fyrir miklum gjaldhækkunum. Algengar prósentutölur er 30 til 35% hækkanir hjá einstökum bændum og gildir það einkum um þá sem kynda húsnæði með raforku og þá sem greiða sérstakt dreifigjald vegna mikillar fjarlægðar frá þéttbýli.“

Hér er svo rakið ítarlega hvernig afleiðingar af raforkulögunum, þessari stefnu ríkisstjórnarinnar í raforkumálum, hafa bitnað harkalega á ferðaþjónustubændum. Við getum rakið miklu fleiri dæmi um það hvernig þessi stefna hefur komið harkalega niður, sérstaklega á atvinnulífi úti um hinar dreifðu byggðir landsins.

Ég spyr: Væri ekki rétt, a.m.k. svona rétt fyrir kosningar, a.m.k. hjá Framsóknarflokknum, að segja: Nú skulum við segja stopp. Nú skulum við fara yfir raforkumálin. Við skulum fara yfir hvað við höfum verið að gera rangt. Við skulum staldra við. Við skulum ekki halda áfram í þessu markaðs- og einkavæðingarferli. Við skulum segja stopp og fara yfir málin. Nei. Þá er áfram valið að keyra á þetta enn frekar. Frumvarpið um að leggja bæði Orkubú Vestfjarða og Rarik í Landsvirkjun gengur þvert á það sem allir segja nú, að við séum á rangri braut. Allir nema forustumenn ríkisstjórnarinnar sem vilja halda áfram og keyra vel áfram einkavæðingu og markaðsvæðingu raforkugeirans.

Ég spurði ráðherra um það hvernig það færi með þessar eignir Rariks að fyrirhugaðri Villinganesvirkjun sem Vinstri hreyfingin – grænt framboð um allt land og í Skagafirði sérstaklega hefur barist gegn og hefur þó komið því til leiðar að framsóknarmenn hafa ekki enn getað virkjað Jökulsárnar í Skagafirði, en þetta er á stefnuskrá þeirrar sveitarstjórnar sem þar er nú, framsóknarmanna og Samfylkingarinnar í Skagafirði að setja Villinganesvirkjun á skipulag. Það er allt tilbúið fyrir Villinganesvirkjun. Eignaraðilarnir núverandi eru Rarik og Kaupfélag Skagfirðinga að mestu leyti. (Gripið fram í.) Nei, ég er að spekúlera: Hver fær eignarhlut Rariks og hver fer með hann? Því þarna hafa togast á, eins og við vitum báðir, ég og hv. þm. Jóhann Ársælsson, þarna hafa togast á þessir tveir aðilar um virkjunarréttinn og rannsóknaleyfisréttinn. Annars vegar Rarik og Kaupfélag Skagfirðinga og hins vegar Landsvirkjun.

Við höfum tekið snerrur á Alþingi einmitt út af lagasetningum sem fyrrverandi hæstv. iðnaðarráðherra Framsóknarflokksins, Valgerður Sverrisdóttir, núverandi utanríkisráðherra, keyrði hér inn á Alþingi til að liðka fyrir virkjunarframkvæmdum í Jökulsánum fyrir tveimur árum sem okkur tókst að stoppa þá, en snerist einmitt um deiluna á milli Landsvirkjunar, Rariks og Kaupfélags Skagfirðinga um hver skyldi hafa virkjunarréttinn og hvernig honum skyldi úthlutað eða staðið að honum. Samkvæmt núgildandi lögum um raforkuver stendur:

,,Þá er iðnaðarráðherra heimilt að veita Rafmagnsveitum ríkisins eða félagi með aðilum í Skagafirði sem þær eiga aðild að leyfi til að reisa og reka virkjun Héraðsvatna við Villinganes í Skagafirði.“

Nú er Rarik þá orðið dótturfélag Landsvirkjunar og Landsvirkjun fer með málefni Rariks. Þar með virðist virkjunarrétturinn vera kominn í hendur Landsvirkjunar.

Ég hef flutt frumvarp á Alþingi, og við þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, um að afnumin verði þessi heimild í lögum fyrir Villinganesvirkjun og endanlega verði fallið frá öllum áformum um virkjanir í Jökulsánum í Skagafirði hver sem á í hlut, hvort sem það er Rarik eða Landsvirkjun.

Maður veltir fyrir sér stöðu annarra sveitarfélaga. Ég er búin að tala um orkubú og hvernig Vestfirðingar hafa verið sviknir nánast frá ári til árs varðandi orkubúið sitt sem var knúið af þeim upp í skuldir sem ríkið hefði í raun átt að vera ábyrgt fyrir. Ég minnist þess líka þegar Rafveita Sauðárkróks á síðustu mánuðum, alveg eins og verið er að gera hér af hálfu Framsóknarflokksins í ríkisstjórn — á síðustu mánuðum Framsóknarflokksins í sveitarstjórn Skagafjarðar fyrir um fimm árum seldu þeir Rafveitu Sauðárkróks til Rariks. Rafveita Sauðárkróks malaði gull fyrir Sauðárkrók og fyrir sveitarfélagið Skagafjörð og var góð og sinnti þar margvíslegum verkefnum. En ein af röksemdunum fyrir því var að verið væri að selja hana fyrirtæki sem aldrei breytti um eignarform. Þetta væri ekki hlutafélag, þetta væri stofnun í eigu ríkisins eins og Rarik var þá og þess vegna væri þetta engin áhætta.

Hitaveitan á Blönduósi var með sama hætti seld í Rarik sem þá var þjónustustofnun á vegum ríkisins. Alla vega voru þau rök notuð þá. Nú er þetta fyrirtæki komið með hf. fyrir aftan og komið á bullandi siglingu á markaði. Ég er ekki viss um að þessi sveitarfélög hafi ætlað að selja þessar veitur sínar til að lenda á markaðsvagni orkufyrirtækja hálfpartinn í einokunarumhverfi eins og hér er lagt til.

Mér finnst því, frú forseti, eins og verið sé að fara aftan að öllum með því að einkavæðingarferillinn sem keyrt er á, Orkubúið lagt inn í Landsvirkjun, Rarik lagt inn í Landsvirkjun og allt saman síðan á blússandi einkavæðingarferð. Heimilt er að selja einstaka þætti út úr Landsvirkjun. Það er hægt að einkavæða hana á margan hátt. Það þarf ekki endilega að einkavæða hana og selja hana í heilu lagi. Það er hægt að gera það í áföngum, selja út úr henni verkefni eins og þegar er farið að gera. Ég er ekki viss um að þetta hafi verið ætlunin.

Þegar á allt er litið er því fyllilega ástæða til að við stoppum hérna. Það eru að koma kosningar, þetta er mál sem mikil óeining hefur ríkt um í samfélaginu á undanförnum árum, þ.e. hvert stefnir í raforkumálum og orkumálum þjóðarinnar. Ríkisstjórnin hefur keyrt hér mjög harða einkavæðingar- og markaðsvæðingarpólitík sem hefur leitt til mikillar hækkunar á raforkuverði víða. Hún leiðir til einokunar og fákeppni á raforkumarkaðnum. Það virðist vera að öllu eigi að fórna til þess að styrkja og hlaupa undir bagga hjá Landsvirkjun vegna stóriðjuframkvæmdanna. Öllu skal fórnað, Orkubúi Vestfjarða, Rarik og þjóðlendunum. Allt skal vera lagt inn til þess að bjarga eiginfjárstöðu Landsvirkjunar. Ríkið ber enn þá ábyrgð á Landsvirkjun og getur vel lagt fjármagnið beint fram. Það er ekki verið að taka eignir út úr með þessum hætti til að setja þar inn.

Frumvarpið um að leggja Orkubú Vestfjarða og Rarik í Landsvirkjun, til að bakka þar upp þá markaðsvæðingu sem þar er komin í gang, finnst mér vera röng stefna, hún er ótímabær og órökstudd. Það er að koma að kosningum og þá eigum við bara að segja stopp og vera ekki að flana að neinu svona síðustu vikur fyrir kosningar. Vonandi verður skipt um ríkisstjórn og Vinstri hreyfingin – grænt framboð kemst að. Þá gefst kostur til þess að freista þess að setja orkumálin í betri farveg á ný.