133. löggjafarþing — 74. fundur,  20. feb. 2007.

tollkvótar við innflutning landbúnaðarafurða.

621. mál
[17:56]
Hlusta

Anna Kristín Gunnarsdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég geri mér fullvel grein fyrir því að við hv. þm. Drífa Hjartardóttir munum ekki komast að sameiginlegri niðurstöðu um það hver eigi upptökin að því að sú matarverðslækkun sem á döfinni er er komin fram. En ég vil minna hv. þingmann á að það var fyrir fimm árum sem hv. þm. Rannveig Guðmundsdóttir hóf sína þrotlausu baráttu og það er ekki fyrr en núna sem hún er að bera árangur, en auðvitað fögnum við öllum góðum liðsmönnum.

Ég er sammála hv. þingmanni með það að íslenskur landbúnaður þolir ekki kollsteypur og það er einmitt þess vegna sem Samfylkingin lagði fram í sinni tillögu að fyrirkomulagi stuðnings við landbúnað yrði breytt í samráði við bændur. Við gerum okkur að sjálfsögðu grein fyrir því að íslenskur landbúnaður þolir ekki kollsteypur, ekki frekar en hver annar atvinnuvegur á Íslandi. Það er ekki farsælt að fara fram með byltingum, eins og þó hefur þurft að gera hér á landi vegna þess að því hefur verið stjórnað illa. Núna er t.d. í gangi bylting á Austurlandi vegna þess að þar hafði atvinnulíf drabbast niður áratugum saman, lengst af undir stjórn Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks, og niðurstaðan varð sú að þar þurfti að fara í svo stórtækar aðgerðir að þar stendur yfir bylting sem er auðvitað engum holl, og ekki viljum við það með íslenskan landbúnað.