133. löggjafarþing — 75. fundur,  21. feb. 2007.

slysavarnir aldraðra.

269. mál
[13:03]
Hlusta

heilbrigðisráðherra (Siv Friðleifsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég sé ekki við fyrstu sýn hvort eitthvað sé að okkar lögum. Varðandi hitaveituna eru, að ég tel, nokkuð skýr ákvæði í lögum og reglugerðum um þau atriði en það er auðvitað sveitarfélaganna að framfylgja því að farið sé eftir þeim. En ég vil taka undir það sem hér hefur komið fram að verið er að gera mjög margt gott á þessu sviði og fjölmargir aðilar koma þar að. Það er rétt sem fram hefur komið að heilsugæslan og félagsþjónusta sveitarfélaga eru í nokkuð stóru lykilhlutverki af því að þar verða slysin tíðust. Ég vil í því sambandi benda á það, sem ég hef haft mjög miklar áhyggjur af, að meira en helmingur sveitarfélaga hefur dregið úr félagslegri þjónustu fyrir aldraða í heimahúsum. Mér finnst það mjög alvarlegt mál og þetta eru mörg sterkrík sveitarfélög. Það eru ekki fátæk veikburða sveitarfélög sem eru að gera þetta.

Ég hef bent á að Reykjavík, sem er langstærsta sveitarfélagið, hefur ekki verið að auka félagslegu heimaþjónustu sína fyrir aldraða. Sami tímafjöldi var á tímabilinu 1999–2003, þetta kemur fram í skýrslu Ríkisendurskoðunar. Sveitarfélög eins og Kópavogur, Reykjanesbær, Garðabær, Seltjarnarnes, Akranes og Ísafjarðarbær drógu úr félagslegri heimaþjónustu fyrir aldraða 1990–2003 og mörg þeirra sveitarfélaga sem ég var að lesa upp eru sterkrík sveitarfélög í sókn. Hvað er í gangi? Ég vil draga þetta sérstaklega fram af því að sveitarfélögin hafa mjög miklu hlutverki að gegna í þjónustu við aldraða og félagsþjónusta sveitarfélaga er má segja eiginlega fyrsta þjónustustigið og það er miklu eðlilegra að fólk fái félagsþjónustu frá sveitarfélaginu áður en það fær heimahjúkrun frá heilsugæslunni. Það er seinna stigið þegar fólk er orðið veikara.

Ég segi það, virðulegi forseti, að mér finnst það grafalvarleg staðreynd að meiri hluti sveitarfélaga hefur dregið úr félagslegri heimaþjónustu við aldraða og það líka mörg sterkrík stór sveitarfélög. Það er hneyksli að mínu mati.