133. löggjafarþing — 75. fundur,  21. feb. 2007.

lesblinda.

490. mál
[14:13]
Hlusta

Anna Kristín Gunnarsdóttir (Sf):

Ég þakka hv. þingmanni fyrir þessa fyrirspurn og hæstv. ráðherra fyrir svörin sem satt að segja vöktu með mér ugg, þ.e. hjá manni vaknar óneitanlega sá grunur að alls ekki sé nógu vel staðið að hlutunum hjá ýmsum sveitarfélögum. Það bendir í sömu átt og reynsla ýmissa framhaldsskóla sem standa frammi fyrir því að nemendur greinast lesblindir fyrst þegar þeir eru komnir á framhaldsskólastig og það getur varla talist eðlilegt í dag, árið 2007.

Til er ný aðferðafræði sem ég veit að borið hefur mjög góðan árangur en foreldrar hafa sjálfir neyðst til að standa straum af kostnaði við hana sem nemur mörg hundruð þúsundum á hvert barn. Ég beini því þess vegna til hæstv. ráðherra að veita þessari nýju aðferðafræði athygli og taka hana í notkun fyrir þau börn og ungmenni sem greinast lesblind.