133. löggjafarþing — 76. fundur,  21. feb. 2007.

meðferðarúrræði fyrir áfengis- og vímuefnasjúklinga.

[15:46]
Hlusta

Valdimar L. Friðriksson (Fl):

Herra forseti. Fíkniefnavandinn er mikið vandamál í samfélaginu og til að taka á vandanum þarf fjármagn. Það er til fjármagn hjá ríkinu, þetta er spurning um forgangsröðun, þ.e. að beina fjármagninu á rétta staði. Úrræði þurfa að vera til fyrir börn sem ánetjast fíkniefnum, við höfum t.d. neyðarvistun á Stuðlum. Þar er unnið mjög gott starf en þeim er ætlað að sinna öllu höfuðborgarsvæðinu. Það er ekki nóg að hafa neyðarúrræði, það þarf líka að hafa þjónustu í framhaldsmeðferð.

Herra forseti. Talandi um fjármagn og forgangsröðun, talandi um þjónustusamninga, eins og hv. þm. Ásta Möller gerði áðan, og talandi um að efla SÁÁ, eins og hæstv. heilbrigðisráðherra gerði hér áðan, þá lagði ég síðasta mánudag spurningu fyrir hæstv. heilbrigðisráðherra varðandi þjónustusamning við SÁÁ. Sá samningur rann út í mars 2005, enginn þjónustusamningur var gerður 2006 og enginn samningur hefur heldur verið gerður fyrir árið 2007.

Svarið frá hæstv. ráðherra var á þessa leið, með leyfi forseta:

„Vegna þessarar fyrirspurnar vil ég líka benda á að utandagskrárumræða er fyrirsjáanleg á miðvikudaginn um áfengis- og vímuefnameðferð og þá gefst þingmönnum kostur á að ræða þessi mál frekar.“

Nú spyr ég enn og aftur, herra forseti: Hvað með þjónustusamning við SÁÁ? Af hverju var ekki gerður þjónustusamningur í fyrra? Af hverju hefur ekki verið gerður þjónustusamningur fyrir þetta ár, þrátt fyrir að Ríkisendurskoðun hafi gert athugasemdir við þessi vinnubrögð? Af hverju er þessi samningur ekki gerður? Hvernig ætlar hæstv. ráðherra að efla starf SÁÁ ef ekki er hægt að ganga frá einum þjónustusamningi?