133. löggjafarþing — 77. fundur,  22. feb. 2007.

Fríverslunarsamtök Evrópu 2006.

552. mál
[15:51]
Hlusta

Jón Gunnarsson (Sf):

Frú forseti. Ég ætla að fylgja úr hlaði skýrslu deildarinnar um starfsemi þingmannanefndar EFTA og þingmannanefndar EES á starfsárinu 2006 en skýrslan liggur fyrir á þskj. 823.

Það þarf ekki að orðlengja það að utanríkisviðskipti verða sífellt mikilvægari fyrir íslenska hagkerfið nú á tímum hraðrar hnattvæðingar og aukins viðskiptafrelsis. Mesta góðæristímabil Íslandssögunnar er til vitnis um hvernig viðskiptafrelsi og opnun gagnvart umheiminum hefur aukið hagsæld og lífsgæði hér á landi og í raun gerbylt efnahagslífinu.

Í þessu sambandi gegna Fríverslunarsamtök Evrópu, EFTA, og Evrópska efnahagssvæðið, EES, lykilhlutverki sem grundvallarstoðir íslenskrar utanríkisverslunar og eykst mikilvægi þeirra með hverju ári.

Af þeim fjöldamörgu málum sem komu til kasta þingmannanefndar EFTA á starfsárinu má segja að tvö mikilvæg málefni hafi sérstaklega verið í brennidepli sem beindust bæði að því að tryggja markaðsaðgang og viðskiptafrelsi fyrir aðildarríkin. Annars vegar fjallaði þingmannanefndin um fyrirhugaða stækkun Evrópusambandsins sem tók gildi 1. janúar sl. og hins vegar um gerð fríverslunarsamninga á milli EFTA og ríkja utan ESB. Bæði þessi mál komu ítrekað til umræðu á fundum þingmannanefndarinnar á árinu.

Eins og kunnugt er var gengið frá áframhaldandi stækkun ESB til austurs þegar framkvæmdastjórn ESB samþykkti í nóvember inngöngu Búlgaríu og Rúmeníu sem tæki gildi 1. janúar sl. Samningaviðræður EFTA og ESB um samhliða stækkun EES voru því eðlilega veigamikið mál á dagskrá þingmannanefnda EFTA og EES. Nefndirnar fengu reglulega upplýsingar um gang samningamála í viðræðum sínum við ráðherra, embættismenn og sérfræðinga.

Helsta bitbeinið í samningaviðræðunum var kröfur framkvæmdastjórnar ESB um þróunarstyrki EFTA til nýju aðildarríkjanna tveggja. Þar er fyrirmyndin þeir þróunarsjóðir sem EFTA-ríkin komu á fót við síðustu stækkun þegar 10 ný ríki gengu í ESB árið 2004. Það fór svo að ekki náðist samkomulag á árinu og því varð ekki af samhliða stækkun ESB og EES líkt og gerðist við stækkunina árið 2004. Enn hefur ekki náðst samkomulag um stækkun EES en von aðila er að það gerist sem fyrst, og vil ég ekki dvelja lengur við það mál hér.

Í hugum flestra tengist EFTA fyrst og fremst EES-samningnum sem önnur stoð hans á móti ESB. Hin hliðin á EFTA sem fallið hefur í skuggann af EES-samstarfinu er aukin sókn EFTA á sviði fríverslunar og uppbygging nets fríverslunarsamninga við ríki utan Evrópusambandsins.

Fríverslunarsamningum í heiminum hefur fjölgað ört á undanförnum árum. Markmið þeirra er að auka frelsi í viðskiptum með vörur og þjónustu og skapa ný tækifæri í alþjóðlegum viðskiptum með því að opna aðgang að nýjum markaðssvæðum.

Með aukinni svartsýni á að árangur náist í Doha-samningalotu Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar hafa fleiri samtök ríkja og einstök lönd beint sjónum sínum að gerð tvíhliða fríverslunarsamninga og ljóst er að samkeppni fer harðnandi á því sviði. Í því sambandi er mest um verð stefnubreyting Evrópusambandsins frá síðasta hausti um að leggja aukna áherslu á tvíhliða fríverslunarsamninga.

EFTA-ríkin eru tiltölulega smá hagkerfi sem eru mjög háð utanríkisviðskiptum og greiðum aðgangi að erlendum mörkuðum. Í sameiningu teljast EFTA-ríkin þó tólfta stærsta hagkerfi heims og í krafti þeirrar stærðar og samflots hefur verið álitlegur kostur fyrir ríki að semja við EFTA sem eina heild. Ávinningurinn er meiri og samningur því eftirsóknarverðari en ef boðið væri upp á fríverslunarsamninga við einstök EFTA-ríki.

Gildir fríverslunarsamningar EFTA eru nú 15 talsins og hafa engin ríkjasamtök náð meiri árangri í gerð fríverslunarsamninga að Evrópusambandinu undanskildu. Þingmannanefnd EFTA hefur lagt mikla áherslu á fríverslun og stutt dyggilega við bakið á samningagerð EFTA á þessu sviði. Mikið var lagt upp úr umræðum um fríverslun á fundum með ráðherrum á árinu og áhersla lögð á að EFTA verði leiðandi afl í gerð fríverslunarsamninga á heimsvísu.

Á árinu tók fríverslunarsamningur EFTA og Suður-Kóreu gildi, gengið var frá samkomulagi um fríverslun við Egyptaland sem undirritað var í janúar sl. og áfram var unnið að fríverslunarsamningum við Kanada og fleiri ríki. Þingmannanefndin hefur lagt mikla áherslu á samningagerð við Kanadamenn og hélt sérstök sendinefnd þingmanna til Kanada nú í febrúarmánuði til að þrýsta á um jákvæða niðurstöðu í yfirstandandi viðræðum og tryggja stuðning kanadískra þingmanna við slíkan samning.

Þetta liggur þó utan efni skýrslunnar sem hér er til umræðu og mun ég því ekki fjalla nánar um þær góðu viðræður sem við EFTA-þingmenn áttum við kollega okkar í kanadíska þinginu.

Þessi tvö málefni, stækkun ESB og EES annars vegar og fríverslunarsamningar EFTA hins vegar, komu eins og fyrr sagði ítrekað til umfjöllunar á fundum þingmannanefndar EFTA og EES á árinu.

Af öðrum stórum málum sem komu til umræðu hjá þingmannanefndunum árið 2006 má nefna Lissabon-áætlunina um vöxt, framtíð og samkeppnishæfni hagkerfis Evrópusambandsins, þjónustutilskipun ESB, innflytjendastefnu ESB, bann ESB við notkun fiskimjöls til dýrafóðurs og framtíðarstefnu sambandsins í siglingamálum en unnið er að sjálfbærri heildarstefnu hvað varðar siglingar, hafnamál, strandlengjur og ýmis önnur hagsmunamál tengd hafinu.

Hér er ekki tóm til að fara yfir þessi viðamiklu mál eða einstaka fundi þingmannanefnda EFTA og EES. Vísa ég í ítarlega umfjöllun í fyrirliggjandi skýrslu Íslandsdeildar hvað það varðar.

Frú forseti. Ég vík nú máli mínu að starfsemi Íslandsdeildar. Hvað varðar skipan hennar og breytingar innan ársins vísa ég í fyrirliggjandi skýrslu. Íslandsdeildin var venju samkvæmt mjög virk í starfi þingmannanefnda EFTA og EES á árinu og lét að sér kveða í öllum helstu málum sem til umræðu komu í nefndunum.

Guðlaugur Þór Þórðarson, formaður Íslandsdeildar, var skýrsluhöfundur einnar af fjórum skýrslum þingmannanefndar EES ásamt breska Evrópuþingmanninum Díönu Wallis. Skýrslan fjallaði um innleiðingu EES-löggjafar en í henni var skoðað hvort munur væri á EFTA-ríkjunum annars vegar og ESB-ríkjunum hins vegar hvað varðar tímamörk við innleiðingu EES-gerða í innlenda löggjöf.

Þá tók Íslandsdeildin bann ESB við fiskimjöli til dýrafóðurs ítrekað upp á fundum þingmannanefndar EES en banninu var komið á árið 2001 þegar óttinn við kúariðu var hvað mestur. Bjarni Benediktsson lagði fram greinargerð um málið á fundi þingmannanefndar EES þar sem fram kom að engin vísindaleg rök væru gegn fiskimjölsfóðri. Bannið kom á sínum tíma til af ótta við að það yrði drýgt með ólöglegu kjöt- og beinamjöli en þegar árið 2003 var búið að finna örugga aðferð til að greina slíka blöndun. Þá lagði framkvæmdastjórn ESB til að banninu yrði aflétt en Evrópuþingið hefur staðið á móti því. Þingmannanefndin hefur átt í viðræðum og bréfaskriftum við Evrópuþingið vegna málsins og mun halda áfram að vinna að lausn þess.

Þá tók Guðlaugur Þór Þórðarson upp innan þingmannanefndar EES sjóræningjaveiðar á Norður-Atlantshafi og aðgerðir til að sporna við þeim. Dæmi eru um að skip sem stunda veiðarnar og sigla undir hentifána hafi fengið þjónustu í evrópskum höfnum. Málið var tekið upp á fundi þingmannanefndarinnar og í bréfi þar sem þau Evrópulönd voru talin upp sem veitt hafa skipum sem stunda sjóræningjaveiðar þjónustu í höfnum sínum. Venja er að Íslandsdeildin haldi fund með Evrópunefnd þjóðþings þess ríkis sem stendur næst í röðinni til þess að taka við formennsku í ESB, en nýtt formennskuríki tekur við á sex mánaða fresti. Finnar tóku við formennsku á miðju ári og Þjóðverjar í ársbyrjun 2007. Slíkir fundir gera Íslandsdeildinni kleift að kynna aðkomu Íslands að Evrópusamstarfinu og EES-samninginn jafnframt því að fá kynningu á helstu áherslum í formennskuáætlun hins komandi formennskuríkis ESB.

Fundur Íslandsdeildar með fulltrúum stórunefndar finnska þingsins sem hefur Evrópumál á sínu starfssviði fór fram í Helsinki 28. mars. Fulltrúar stórunefndar gerðu grein fyrir helstu áherslumálum Finna á síðari árshelmingi 2006, svo sem styrkingu hinnar norðlægu víddar ESB, vinnu við stækkun sambandsins og stjórnarskrármálinu. Íslandsdeildin gerði m.a. grein fyrir aðkomu Íslands að Evrópusamstarfi með EES-samningnum, greiðslum í þróunarsjóði fyrir fátækari aðildarríki ESB og þátttöku í Schengen.

Fundur Íslandsdeildar með fulltrúum Evrópunefndar þýska þingsins fór fram í Berlín 30. nóvember. Evrópunefndarmenn greindu frá helstu áherslumálum Þjóðverja á fyrri árshelmingi 2007, svo sem áframhaldandi vinnu í stjórnarskrármálum ESB þar sem leitað verður leiða til að bjarga stjórnarskrárdrögum sem hafnað var í þjóðaratkvæðagreiðslum í Frakklandi og Hollandi árið 2005. Áhersla verður jafnframt lögð á að vinna áfram að markmiðum Lissabon-áætlunarinnar um að auka samkeppnishæfni ESB en gæta um leið að félagslegum réttindum borgara sambandsins.

Virðulegi forseti. EFTA hefur tekið miklum breytingum í gegnum tíðina en ég held að það skipti gríðarlega miklu máli fyrir okkur að nýta þetta tæki sem við höfum og þetta góða samstarf sem við eigum með þjóðum til að auka viðskiptafrelsi okkar. Það gerum við eðli málsins samkvæmt með fríverslunarsamningum og það er mikilvægt að ná samningum við sem flesta aðila, þá sérstaklega hin stóru markaðssvæði.

Ég vil að lokum, virðulegi forseti, þakka meðlimum Íslandsdeildar fyrir gott samstarf á þessum mikilvæga vettvangi sem og starfsfólki skrifstofu EFTA. Jafnframt þakka ég sérstaklega ritara Íslandsdeildar, Stíg Stefánssyni, fyrir afar gott starf í þágu nefndarinnar og vandaðan undirbúning fyrir þá fundi sem við höfum sótt á þessum vettvangi. Við eigum, frú forseti, að róa að því öllum árum að auka viðskiptafrelsi og EFTA er mikilvægt tæki til þess.