133. löggjafarþing — 78. fundur,  26. feb. 2007.

þjónusta við alzheimersjúklinga -- atvinnumál á Ísafirði.

[15:05]
Hlusta

heilbrigðisráðherra (Siv Friðleifsdóttir) (F):

Virðulegur forseti. Ég get ekki tjáð mig um hvert einstakt tilfelli og hef ekki upplýsingar um þessa manneskju sem hv. viðkomandi þingmaður vísar í.

En varðandi gögn úr bókhaldi Tryggingastofnunar ríkisins fyrir 2006 tóku 528 einstaklingar þátt í greiðslu daggjalda á hjúkrunarheimilum og meðalgreiðsla á mánuði var 35.650 kr. Hámarksgreiðsla var 171.022 kr. á mánuði og það var einungis einn sem greiddi þá upphæð. Meðalgreiðslan sem verið er að greiða er því um 35.650 kr. á mánuði.

Varðandi sérhæfða hvíldarrýmið sem hv. þingmaður vísaði í á LSH er það mat þeirra sem þar vinna að bráðainnlagnir hafa verið talsverðar upp á síðkastið þannig að þeir vilja nýta rýmin aðallega í þær, en þó telja sérfræðingar okkar að æskilegt sé að þau rými séu fjögur á LSH. Núna er eitt þeirra nýtt í þennan hóp. Þetta fer hins vegar upp og niður eftir því hvaða álag er á deildinni en fagfólkið segir æskilegt að þau væru fjögur.

Hvað varðar þjónustu fyrir heilabilaða almennt vil ég sérstaklega taka fram að miðað við þennan hóp er talað um að 15–20% hans þurfi sérstök heilabilunarúrræði og það þýðir að hér þyrftu að vera 332 hjúkrunarrými fyrir þennan hóp. Þau eru reyndar fleiri, þau eru 362 ef við teljum LSH með. Við ætlum samt að bæta við um 60 rýmum, 40 á Suðurlandsbraut og 20 á Selfossi. Við erum því að fara að bæta við tæplega 20% fyrir þennan hóp. Við erum líka að fara að fjölga dagvistarúrræðum í kringum 20% á næstunni. Það er því verið að stórbæta þjónustuna fyrir hópinn.