133. löggjafarþing — 78. fundur,  26. feb. 2007.

Þjóðskjalasafn Íslands.

642. mál
[17:18]
Hlusta

Jóhann Ársælsson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég verð að viðurkenna að ég hef aðra skoðun á þessu. Mér finnst að sagan hafi sýnt að eftir að þau lög voru sett og þeim beitt með þeim hætti sem þarna hefur komið í ljós, að enginn af þessum aðilum var dæmdur fyrir neitt af slíku athæfi sem átti að liggja til grundvallar þeim hlerunum sem þarna höfðu farið fram, að það verður að virða mér það til vorkunnar að ég efist um að þarna hafi legið til grundvallar hlutir sem hafi haft einhvern raunveruleika því ég geri algerlega ráð fyrir því að dómskerfið og þeir sem áttu að gæta réttarins, lögreglan og aðrir slíkir, hafi unnið sitt verk og komist að þeirri niðurstöðu að þessar hleranir hafa allar verið leyfðar að ástæðulausu og ekkert hafi fundist saknæmt hjá viðkomandi aðila. Þeir hafa því allir verið sýknaðir af þeim grunsemdum sem þarna voru uppi og þá fer maður auðvitað að spyrja sig, það gera a.m.k. flestir, hvort tilefni hafi verið til að leyfa hleranir á grundvelli þessara grunsemda sem enginn veit hverjar voru.