133. löggjafarþing — 79. fundur,  27. feb. 2007.

málefni byggðarlaga utan landshlutakjarna.

[14:25]
Hlusta

Einar Oddur Kristjánsson (S):

Virðulegur forseti. Ég fagna þessari umræðu og þakka fyrir hana. Staða byggða mjög víða á Íslandi er hættuleg. Það er mjög hættulegt fyrir eina þjóð ef svo horfir að stór hluti landsins fái ekki að vera í byggð. Við skulum líta á þetta alvarlegum augum og tala um þetta af mikilli alvöru.

Ég fullyrði að sú skipting á milli þenslu og samdráttar sem er í þessu landi gefi augaleið um að við það vaxtastig sem er í þessu landi fær enginn atvinnurekstur þrifist. Þar sem stýrivextir eru milli 14 og 15% fær engin framleiðslugrein staðist, alls ekki. Það er bara ávísun á að hún leggist af. Það er grundvallaratriði að komast út úr þessum vaxtamálum. Öðruvísi verða allar tilraunir okkar til einskis.

Ég fagna því þeim ummælum sem hér hafa komið fram frá fólki úr öllum flokkum um þá brýnu nauðsyn að standa vörð um byggðir landsins. Ég vek athygli á því að innan tíðar, innan nokkurra daga á ég von á, kemur fram frumvarp sem styður veikustu byggðir Íslands, þar sem fátækasta fólkið býr. (Gripið fram í.) Það er sauðfjársamningurinn sem verður lagður fyrir þingið eftir nokkra daga og ég vonast þá til þess að það sýni sig að menn standi með þessu fátækara fólki, með veikasta hluta Íslands. Það eru Skaftafellssýslur, Þingeyjarsýslur, Múlasýslur, Húnaþing, Dalir og Vestfirðir sem eiga hér undir (Forseti hringir.) að sauðfjárræktin fái staðist. Það verður þá prófsteinn á sannleiksgildi þeirra orða sem hér hafa fallið, hvort menn ætla að standa við þau eða ekki.