133. löggjafarþing — 79. fundur,  27. feb. 2007.

virðisaukaskattur.

558. mál
[15:15]
Hlusta

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég gæti fært ýmis rök hér gegn þeim röksemdum sem hv. þm. Ögmundur Jónasson hefur flutt hér. Ég ætla hins vegar ekki að gera það í þessu stutta andsvari.

Ég tel að hv. þingmaður hafi fullt frelsi til að setja þessi sjónarmið fram og það sem meira er, mér finnst krafa hv. þingmanns um að hæstv. heilbrigðisráðherra komi hér til fundar og skýri sjónarmið sín í þessu máli fullkomlega eðlileg. Því tel ég það? Þegar við ræddum þetta í tengslum við hið stærra frumvarp sem kom hér fyrr í vetur, þá kom hæstv. heilbrigðisráðherra og skýrði rök sín varðandi tiltekna breytingu sem tengist þessu.

Í millitíðinni hefur það síðan gerst að ein af stofnunum hæstv. heilbrigðisráðherra, Lýðheilsustöð, hefur sent mjög eindregin mótmæli gegn þeim breytingum og af þeim mótmælum leiðir þessi tillaga hv. þingmanna Vinstri grænna.

Þess vegna finnst mér það bara sjálfsagt að hæstv. heilbrigðisráðherra komi hingað og skýri hvers vegna hún er á móti þeirri stefnu sem hennar eigin stofnun leggur fram. Ef einhver tiltekin ríkisstofnun er með stefnu sem gengur öndvert við stefnu viðkomandi fagráðherra, þá er sjálfsagt að þingið fái að vita af hverju. Það felur ekki í sér stuðning minn við sjónarmið hv. þingmanns heldur einungis við þá kröfu hans að ráðherrann komi hingað og skýri þetta. Menn verða að standa fyrir máli sínu.

Ég kem hingað þó aðallega til að spyrja hv. þingmann um það sem varðar lækkunina á matarverðinu. Hún á að taka gildi eftir tvo daga. Hæstv. ríkisstjórn lofaði 16% meðallækkun. Það átti að vera 16% lækkun á heimilisútgjöldum sem varða þann flokk sem hér er undir. Hefur formaður BSRB, svo ég víki mér nú að honum, ekki áhyggjur af því að allt bendir til þess að lækkunin verði einungis helmingur af því, eða 8%? Á hann ekki að láta sér svolítið annt um þetta sökum þess að hann er náttúrlega baráttumaður fyrir mikinn fjölda (Forseti hringir.) alþýðumanna hér á landi? Þetta er alvarlegt mál, tel ég. Miklu alvarlegra en hitt.