133. löggjafarþing — 79. fundur,  27. feb. 2007.

virðisaukaskattur.

558. mál
[16:05]
Hlusta

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég ætla að láta ákveðin frýjunarorð hv. þm. Ágústs Ólafs Ágústssonar fram hjá mér fara því að ég held að við hv. þingmaður séum í meginatriðum samherjar í þessum málum. Ég held að þau viðhorf sem móta afstöðu okkar séu í grundvallaratriðum svipuð, eins og birtist í ummælum hv. þingmanns um breytingartillögur hv. þm. Ögmundar Jónassonar og Vinstri grænna sem fram hafa komið við þessa umræðu. Þar mótast afstaða okkar af sömu sjónarmiðum, við erum á því að skattkerfið eigi að vera einfalt og skilvirkt og eigi ekki að mótast af hugmyndum um neyslustýringu.

Það er alveg rétt sem kom fram hjá hv. þingmanni að við umræðuna í desember lagði hann og fleiri þingmenn Samfylkingarinnar fram breytingartillögur sem gengu lengra en þær sem ríkisstjórnin stóð að og fólu í sér að einnig yrðu afnumin vörugjöld af sykri og sætindum samkvæmt tollskrá. Það er það eina sem stendur eftir af matvörum sem eru með vörugjaldi. Ég hef samúð með þeim sjónarmiðum sem hann hefur kynnt í þeim efnum en hins vegar er ljóst að um það var ekki samstaða meðal ríkisstjórnarflokkanna að ganga svo langt og þess vegna var skrefið sem stigið var ekki lengra. Hins vegar finnst mér mjög mikilvægt að því sé haldið til haga í þessari umræðu, af því að mér finnst umræðan fara dálítið út og suður, að 1. mars nk. verður mesta breyting, mesta lækkun á skattlagningu matvæla sem dæmi eru um í síðari tíma sögu Íslands. Ég held að við ættum ekki að draga athyglina frá því. Það er alveg klárt að þeir skattar sem lagðir eru á matvæli með ýmsum hætti hafa aldrei verið lækkaðir jafnmikið í einum áfanga.