133. löggjafarþing — 79. fundur,  27. feb. 2007.

virðisaukaskattur.

558. mál
[18:43]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg):

Frú forseti. Við ræðum hér þingmál sem okkur er vel kunnugt því að löng umræða var um það í 1. umr. Það sem tekur mest plássið í 2. umr. er kannski breytingartillaga frá hv. þm. Ögmundi Jónassyni, breytingartillaga Vinstri grænna eins og hún hefur verið nefnd í umræðunni. Ég kannast alveg við að sú breytingartillaga nýtur stuðnings í öllum þingflokki Vinstri grænna og hefur hv. þm. Ögmundur Jónasson farið yfir það í ágætu máli hvers vegna svo er.

Þá koma hér hv. þingmenn eins og hv. þm. Pétur H. Blöndal, formaður efnahags- og viðskiptanefndar, og talar (Gripið fram í.) af miklum þunga um forræðishyggju Vinstri grænna. Sínum augum lítur hver á silfrið, hæstv. forseti, og núverandi ríkisstjórn er nú ekki alveg laus við ansi mikla forræðishyggju. Nægir að nefna eitt dæmi máli mínu til stuðnings. Það er ríkisstudd stóriðjustefna sem ákvað það fyrir meginþorra vinnandi fólks á Mið-Austurlandi að þar skyldu allir láta sér lynda og láta sér vel líka að starfa í álveri. Ef það er ekki forræðishyggja, risavaxnasta framkvæmd Íslandssögunnar, sem hv. þingmaður studdi, hvað er þá forræðishyggja? Og hver er þá réttur hv. þingmanns til að væna aðra þingmenn í hvössum orðum um forræðishyggju þegar hann er með Kárahnjúkavirkjun hangandi sér um hálsinn og stórt álver á Austurlandi? Og ekki nóg með það heldur með áframhaldandi álversuppbyggingu allt í kringum landið.

Við skulum bara athuga að við erum eflaust öll haldin mismikilli forræðishyggju. Ég skammast mín ekki fyrir að vera haldin þeirri hugmynd sem hv. þm. Ögmundur Jónasson leggur til grundvallar breytingartillögu sinni. Sú hugmynd á rætur að rekja til, hvorki meira né minna, en heilbrigðisáætlunar ríkisstjórnarinnar til ársins 2010, sem ég geri ráð fyrir að hv. þm. Pétur H. Blöndal hafi líka samþykkt. Ég geri líka ráð fyrir því að hv. þm. Pétur H. Blöndal hafi samþykkt lög um Lýðheilsustöð sem tóku gildi þann 1. júlí 2003. Hann veltir vöngum, ég hefði gaman af að fletta því upp og ég skal gera það þegar ég hef lokið máli mínu.

Lýðheilsustöð var stofnuð eins og ég sagði 1. júlí 2003 með lögum frá Alþingi Íslendinga nr. 18 og hún heyrir undir heilbrigðis- og tryggingaráðuneytið. Stefna og starfsemi hennar byggist á heilbrigðisáætlun stjórnvalda til ársins 2010 og sú stefnumörkun byggir aftur á stefnumörkun Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar. Við stofnun Lýðheilsustöðvar féllu undir starfsemi hennar nokkuð mörg smærri ráð og ýmis batterí sem m.a. höfðu sinnt forvarnamálum og eitt þeirra ráða er manneldisráð. Ég minnist þess þegar ég las fyrst þau plögg sem vörðuðu manneldisráð og stefnu þess þá lagði manneldisráð beinlínis til neyslustýringu með skattlagningu sérstaklega þegar um væri að ræða óhollustuvörur sem freistuðu ungmenna. Ég hef ekki lesið heilbrigðisáætlunina frá orði til orðs en ég geri ráð fyrir að manneldisráð og grunnurinn sem það starfaði á hafi fylgt inn í heilbrigðisáætlunina.

En í núgildandi heilbrigðisáætlun segir eftirfarandi, með leyfi forseta:

„Heilbrigðisþjónustan megi ekki eingöngu snúast um lækningar og meðhöndlun sjúkdóma heldur verði hún einnig að beinast að grunnheilsugæslu, þar með töldum forvörnum og heilsueflingu.“

Þetta er að hluta til hlutverkið sem Lýðheilsustöð hefur tekið á sig.

Í markmiðum og forsendum heilbrigðisáætlunarinnar segir, með leyfi forseta:

„Mikilvægt er að heilsuvernd, forvarnir og heilsuefling fái viðeigandi sess innan heilbrigðisþjónustunnar og sjónum hennar verði í auknum mæli beint að því að efla heilbrigði og fyrirbyggja sjúkdóma. Í því starfi þarf að koma til samstillt átak stjórnvalda, stjórnenda í heilbrigðisþjónustu, heilbrigðisstétta, hagsmunafélaga og frjálsra félagasamtaka.“

Þetta er í kaflanum um markmið og forsendur.

Í markmiðssetningunni rekst ég á markmið sem fjallar um þverfaglega ábyrgð á heilsufari og það kemur inn á nákvæmlega þá þætti sem við erum að tala um en það varðar samfélagsaðgerðir. Í kaflanum sem fjallar um það markmið sem nr. 14 í heilbrigðisáætlun segir, með leyfi forseta:

„Verkefni heilbrigðisþjónustunnar eru samofin viðfangsefnum fjölmargra annarra samfélagsgeira og atvinnugreina. Mörg samfélagsleg verkefni sem miða að því að tryggja gott heilsufar fólks verða ekki leyst nema í samvinnu við aðrar atvinnugreinar, fyrirtæki, hagsmunasamtök og fleiri aðila.“

Síðar í þeim kafla segir:

„Framlag fjármálageirans er sömuleiðis mikilvægt við að ná settum markmiðum varðandi heilbrigði og umhverfi. Má þar nefna aðgerðir í verðlags- og skattamálum sem stuðlað geti að aukinni heilsueflingu og heilsusamlegra umhverfi.“

Þá höfum við það, frú forseti, að það er beinlínis markmið sitjandi ríkisstjórnar í heilbrigðisáætlun til ársins 2010, samþykkt hér á Alþingi, að fara þá leið sem Lýðheilsustöð leggur til í umsögn sinni um þetta mál. Ráðlegging Lýðheilsustöðvar er hins vegar hunsuð af stjórnarliðum hér í salnum og ríkisstjórninni, það á að fara aðra leið en að taka þeim rökum sem Lýðheilsustöð færir fram fyrir hugmyndum sínum og ráðum.

Þetta minnir óneitanlega á úrskurði Skipulagsstofnunar þegar úrskurður Skipulagsstofnunar féll um Kárahnjúkavirkjun, að það væri ekki hægt að fallast á hana vegna þess að hún færi í bága við lög í landinu um náttúruvernd og mat á umhverfisáhrifum. Þá gripu stjórnvöld til þess að ráðherra umhverfismála sneri við úrskurði Skipulagsstofnunar. Hér er að mínu mati verið að gera nokkuð svipað. Það er verið að snúa af þeirri braut sem stofnanirnar sem við höfum sett niður í samfélaginu til að ráðleggja okkur stjórnvöldum hafa úrskurðað að ætti að fara, það er verið að snúa niður þá faglegu ráðleggingu sem við fáum og hunsa hana. Mér finnst það mjög miður.

Ég stend því alveg keik í þessum ræðustóli og leyfi hv. þm. Pétri H. Blöndal að kalla þá röksemdafærslu sem ég hef verið með í ræðu minni forræðishyggju.

Hv. þm. Ágúst Ólafur Ágústsson sem hefur miklar athugasemdir við að beita skattlagningu í þágu neyslustýringar hélt því fram með ákveðnum rökum í máli sínu að ef leið Lýðheilsustöðvar yrði farin í þessum efnum mundi það einungis halda uppi verði á vatni og hollri drykkjarvöru. Bíðum nú hæg eitt andartak — ef sú fullyrðing væri rétt og hærra verð yrði haft á gosdrykkjum en ósykruðum drykkjum og drykkjum sem væru betri hvað hollustu varðar, mundi það þá þýða að verð á vatni og hollari drykkjum mundi haldast uppi? Þá finnst mér eitthvað vanta í samfélagslega ábyrgð, t.d. verslunarinnar, kaupmanna og framleiðenda drykkjarvöru og ég spyr — nú veit ég ekki hvort hv. þm. Ágúst Ólafur Ágústsson er í salnum eða heyrir mál mitt — hvort þessi fullyrðing hans lýsi vantrausti á samfélagslegri ábyrgð þessara aðila. Þó svo að virðisaukaskatti og vörugjaldi yrði haldið hærra á gosdrykkjum sem væru sykraðir en á öðrum neysluvörum, hvernig mætti það þá vera að það mundi valda hækkuðu verði á vatni, sódavatni? Það væri þá ekki nema með því að sýnt fullkomið ábyrgðarleysi væri úti í samfélaginu meðal þeirra sem reka verslunina.

Nú vitum við auðvitað að blikur eru á lofti varðandi það hvort neytendur fái í alvöru notið allrar þeirrar lækkunar sem að sjálfsögðu ætti að koma í gegnum þá skattalækkun sem hér er fjallað um. Og meðal annarra orða, ég fagna því auðvitað ef neytendur horfa fram á að vöruverð lækki, ekki veitir af í 7% verðbólgu að eitthvað sé gert til þess að halda vöruverði niðri, því ekki hefur ríkisstjórninni tekist að koma böndum á verðbólguna. (Gripið fram í: Hún er að því.) Mögulega á þessi aðgerð eftir að hafa áhrif þar á, það er rétt. (Gripið fram í: Örugglega.) Já, örugglega ef hún skilar sér. Það eina sem hv. þm. Pétur H. Blöndal getur ráðlagt út í samfélagið er að neytendur séu nú á varðbergi.

Ég tek að sjálfsögðu undir þá hvatningu, það skiptir verulegu máli að neytendur séu á varðbergi í þessum efnum. En ég geri mér líka grein fyrir því að neytendur eiga mjög erfitt með að standa þá vakt til hlítar, til fullnustu. Í fyrsta lagi hefur fólk annað að gera svona dagsdaglega en að vera að taka það alltaf niður með sér á litla blokk hvað hlutirnir kostuðu fyrir virðisaukaskattslækkunina og hvernig verðið þróast síðan í framhaldinu og auðvitað má tína til fleiri rök máli mínu til stuðnings í þeim efnum. En við höfum ákveðnar stofnanir sem við treystum á í þessu sambandi, við höfum Neytendasamtök, við höfum talsmann neytenda, við höfum stéttarfélögin sem hafa lofað okkur að þau komi til með að stunda ákveðna neytendavernd í þessum efnum og við treystum auðvitað á að þetta skili sér allt saman.

Varðandi þetta tiltekna mál um vörugjöld og virðisaukaskatt af gosdrykkjunum þá er það alvarlegt að það skuli vera að fara í gegnum Alþingi Íslendinga ákvörðun um að þessi gjöld eigi að lækka meira en dæmi eru um af öðrum vörum á gosdrykkjum og sykruðum drykkjum. Það er þvert ofan í ráðleggingar Lýðheilsustöðvar og í mínum huga ábyrgðarhluti af okkur hér á Alþingi að fara gegn þeirri ráðleggingu sem við þar höfum fengið.

Að lokum, hæstv. forseti, vil ég bara segja að heilbrigðismarkmið eru allt of sjaldan rædd innan veggja Alþingis, það er allt of oft sem við látum umræðu um heilbrigðismál fara í stóru drættina í heilbrigðismálum. Við tölum lon og don um stóru fjárhæðirnar, um heilbrigðisstofnanirnar, en forvarnirnar og áhrifaríkt starf Lýðheilsustöðvar og þeirra sem starfa á þeim vettvangi fær kannski minni athygli. En það hefur fengið athygli í þessari umræðu og það er að sjálfsögðu vel.

Ég hvet auðvitað til þess að breytingartillaga hv. þm. Ögmundar Jónassonar verði samþykkt. Ég tel að okkur beri skylda til að gera það, ábyrgð okkar á því að standa við heilbrigðisáætlun til ársins 2010 sé slík að það sé einboðið að við ættum að samþykkja tillöguna.