133. löggjafarþing — 79. fundur,  27. feb. 2007.

sóttvarnalög.

638. mál
[19:08]
Hlusta

Kristinn H. Gunnarsson (Fl):

Virðulegi forseti. Hér er um að ræða nokkuð athyglisvert frumvarp sem hæstv. ráðherra mælir fyrir og leggur fyrir Alþingi með ósk um að það verði afgreitt núna á þeim fáu dögum sem eftir eru til þingloka. Mér sýnist að meginbreytingarnar í frumvarpinu frá gildandi sóttvarnalögum séu tvenns konar, eins og kom fram í máli hæstv. ráðherra. Fyrra atriðið er að stofna nýtt embætti sóttvarnalæknis, ef ég skil þetta rétt og ráðherra leiðréttir mig þá ef ég hef ekki náð þessu rétt, en mér sýnist að breytingin sé sú að sóttvarnalæknir, sem í dag er hluti af landlæknisembættinu, eigi núna að verða sjálfstætt embætti. Það er gert til þess að ríkið verði betur í stakk búið til að bregðast við vá sem kann að koma upp í heilsufari vegna utanaðkomandi atriða. Er gerð grein fyrir því í greinargerð með frumvarpinu að þær breytingar sem orðið hafa á alþjóðavettvangi á undanförnum árum hafi gert það að verkum að ýmiss konar vá er nú kannski nær okkur en áður var og að stjórnvöld þurfi því að huga betur að viðbrögðum ef til þess kemur að þeir sjúkdómar eða það sem rakið er í greinargerðinni stingi sér niður og að þá þurfi að grípa til ákveðinna aðgerða, og dregin er upp mjög athyglisverð mynd af breytingum undanfarinna ára.

Í öðru lagi eru breytingar í frumvarpinu þar sem í raun er verið að setja inn í gildandi sóttvarnalög ákvæði úr alþjóðaheilbrigðisreglugerðinni sem er lýst í greinargerð með frumvarpinu og fela í sér möguleika stjórnvalda og heilbrigðisyfirvalda til að grípa til tiltekinna aðgerða, eins og að fara fram á upplýsingar um ferðir ferðamanna, fá þá í læknisrannsókn og annað því um líkt ef grunur kemur upp um smitsjúkdóma eða smit sem ástæða er til að bregðast við. Verið er að opna á eða setja í lög möguleika fyrir stjórnvöld til að geta brugðist við vá af slíkum toga sem kann að koma upp í kjölfar breytinga sem orðið hafa á undanförnum árum og í sjálfu sér sé ég ekki annað en að þetta séu eðlilegir hlutir. Að vísu hef ég ekki tekið afstöðu til þess hvort rétt sé að stofna sérstakt embætti sóttvarnalæknis. Ég held að rétt sé að hugsa það mál áður en lengra er haldið en ég býst við að vandlega verði farið yfir þetta í heilbrigðis- og trygginganefnd og ég bíð þá eftir athugun málsins þar og þeim tillögum sem nefndarmenn kunna að bera fram eftir þá athugun.

Í ljósi umræðu sem verið hefur á undanförnum vikum um kröfur á hendur þeim sem koma til landsins um heilbrigðisvottorð, sem hafa verið nokkuð í umræðunni og fundið hefur verið að því að settar yrðu fram slíkar kröfur eða slík skilyrði fyrir erlenda menn eða aðra sem koma til landsins, að þeir geti sýnt fram á heilbrigði sitt, þá vildi ég aðeins fá fram viðhorf hæstv. ráðherra til þess hvort hún telji að þær kröfur sem er að finna í gildandi sóttvarnalögum og leiða af þeim breytingum sem hér eru lagðar til, gangi ekki í andstæða átt miðað við þá gagnrýni sem komið hefur fram, m.a. frá tveimur hv. þingmönnum Framsóknarflokksins. Þeir hafa litið svo á að sjónarmið sem sett hafa verið fram um að menn gætu framvísað heilbrigðisvottorði bæru vott um andúð á útlendingum og jafnvel að það jaðraði við rasisma að setja fram slíkar hugmyndir. Ég vildi gjarnan fá fram frá hæstv. ráðherra hvort hún er sammála þessum viðhorfum og ef svo er, hvort hún muni þá beita sér fyrir því í þinglegri meðferð að lögunum verði breytt, bæði þessum lögum og kannski ekki hvað síst öðrum lögum, lögum um atvinnuréttindi útlendinga og útlendingalögum sem setja fram kröfur um heilbrigðisvottorð til þeirra sem hingað koma, því að það hljóta þá að vera óeðlilegar kröfur í ljósi þeirra sjónarmiða sem komið hafa fram frá tveimur þingmönnum annars stjórnarflokksins, sama flokks og hæstv. heilbrigðisráðherra er frá.

Sérstaklega vil ég benda á breytingartillöguna í 9. gr. frumvarpsins en þar er bætt við gildandi 17. gr. sóttvarnalaga nokkrum ákvæðum, m.a. þessu, með leyfi forseta:

„Læknisskoðun sem gerð er vegna umsóknar um dvalar- og atvinnuleyfi og er í samræmi við verklagsreglur sóttvarnalæknis skal greiðast að fullu af vinnuveitanda eða þeim sem sækir um dvalar- eða atvinnuleyfi.“

Þarna er beinlínis sett inn í sóttvarnalögin ákvæði sem er ekki í dag, skilyrði um læknisskoðun þeirra sem sækja um dvalar- og atvinnuleyfi. Er það skilyrði, virðulegi forseti, í samræmi við stefnu ríkisstjórnarinnar? Ég get sagt að það er út af fyrir sig í samræmi við gildandi lög, t.d. lög um atvinnuréttindi útlendinga og lög um útlendinga.

Ef ég rifja það aðeins upp sem er í lögunum um atvinnuréttindi útlendinga er meginreglan sú að þeir sem hingað koma til að vinna þurfa að fá atvinnuleyfi. Í 7.–13. gr. laganna um atvinnuréttindi útlendinga er skýrt kveðið á um að þau leyfi, hvort sem þau heita tímabundið atvinnuleyfi eða atvinnuleyfi til sérhæfðra starfsmanna, óbundið atvinnuleyfi, atvinnuleyfi vegna námsdvalar eða atvinnuleyfi vegna vistráðningar, að í öllum þessum tilvikum er skilyrði að viðkomandi hafi lagt fram fullnægjandi heilbrigðisvottorð.

Miðað við tillöguna í frumvarpi hæstv. heilbrigðisráðherra, í 9. gr. frumvarpsins, er ekki hægt að ráða annað en að það sé sjónarmið ráðherrans að þessi stefna í lögunum um atvinnuréttindi útlendinga sé eðlileg og verið sé að setja hana yfir í sóttvarnalögin. En vegna þeirra sjónarmiða sem sett hafa verið fram, bæði hér í þessum þingsal og utan hans af hv. tveimur þingmönnum Framsóknarflokksins — sem hafa reyndar gengið nokkuð langt að mínu viti í að gera mönnum upp skoðanir og fordæma þær — hlýt ég að kalla eftir afstöðu ráðherrans svo fyrir liggi hvort ráðherrann er sammála þingmönnum sínum eða ekki.

Í reglugerðinni um atvinnuréttindi útlendinga — en lögin um atvinnuréttindi útlendinga og reglugerð eru gefin út af félagsmálaráðherra, samflokksmanni heilbrigðisráðherra — er samsvarandi ákvæði og ég gat um í lögunum að til að fá atvinnuleyfi þurfi að leggja fram fullnægjandi heilbrigðisvottorð. Ég er út af fyrir sig til í að hlusta á öll rök í því hvort rétt sé að breyta þessu, hvort rétt sé að afnema þessa meginreglu í lögunum. Hún er að vísu ekki án undanþágna, eins og þeir þekkja sem hafa kynnt sér þau lög, en það er a.m.k. meginreglan í lögunum að krefjast heilbrigðisvottorðs. Ég er út af fyrir sig til í að hlusta á röksemdir og sjónarmið í þeim efnum að hverfa eigi frá þessu sem meginreglu og hætta að gera kröfu til þess að þeir sem hingað koma, hvort sem þeir eru útlendingar eða ekki, til dvalar eða til að vinna leggi fram fullnægjandi heilbrigðisvottorð.

Ég er að vísu í meginatriðum sammála því sem er í gildandi lögum og kemur reyndar fram í því frumvarpi sem hér er lagt til og þeim rökstuðningi sem fyrir breytingunum er. Heilbrigðismál eru auðvitað alvörumál, þeim er ekki beint gegn útlendingum eða fyrir Íslendinga, þeim er bara beint gegn sjúkdómum og fyrir lifandi fólk og það er bara skynsamlegt og eðlileg ráðstöfun að mínu viti að stjórnvöld hvers ríkis reyni að tryggja eftir föngum að smitsjúkdómar og annað slíkt breiðist ekki út eða nái fótfestu, eða þá að sjúkdómar sem búið er að útrýma hér á landi að meira eða minna leyti stingi ekki upp kollinum á nýjan leik, eins og t.d. berklar. Nú er vitað að berklar eru landlægir sums staðar í Evrópu, m.a. í löndum innan Evrópusambandsins og íslensk heilbrigðisyfirvöld hljóta að fylgjast með því og ég spyr hæstv. ráðherra hvernig þau bregðist við því, hvernig viðbúnaður þeirra er til að draga úr líkum á því að sá sjúkdómur stingi sér niður hér. Menn hljóta að vera sammála um að reyna að koma í veg fyrir það og menn hljóta líka að vera sammála um að þeir sem hingað koma og greinast með slíka sjúkdóma eigi að fá læknismeðferð. Við viljum greina vandann til að geta hjálpað fólkinu og til að geta komið í veg fyrir að fólk smiti aðra.

Í meginatriðum er ég því sammála þeirri stefnu sem er að finna í gildandi löggjöf og því frumvarpi sem nú er lagt fram en hins vegar er það í verulegu ósamræmi við þau sjónarmið sem sett hafa verið fram á undanförnum vikum með nokkuð hörðum hætti og mönnum legið þungt á hálsi fyrir, eins og formanni Frjálslynda flokksins, af tveimur hv. þingmönnum Framsóknarflokksins. Ég hlýt að kalla eftir því að ráðherrann sem fer með þennan málaflokk fyrir hönd ríkisstjórnarinnar og flokks síns kveði upp úr um það hver stefnan er og hvort gagnrýni þingmannanna eigi sér stuðning í ríkisstjórninni. Ef svo er tel ég að ráðherra þurfi að gefa þinginu frekari skýringar á því hvers vegna frumvarpið er svona úr garði gert eins og raun ber vitni, því að ég sé ekki að það fari saman. Kannski er það og kannski eru til einhverjar skýringar á því sem ráðherra getur þá reitt fram til að ég átti mig betur á því ef samræmi reynist þar á milli.

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að hafa fleiri orð um þetta en ég tel óhjákvæmilegt að kalla eftir skýrri afstöðu ráðherrans til þeirrar gagnrýni sem komið hefur fram og ég hef rakið.