133. löggjafarþing — 80. fundur,  28. feb. 2007.

kjaradeila grunnskólakennara.

[12:04]
Hlusta

forsætisráðherra (Geir H. Haarde) (S):

Virðulegi forseti. Það hefur áður komið fram í umræðum um þetta mál hér að hér er um að ræða samningsverkefni milli sveitarfélaganna og kennarasamtakanna. Því verður ekki breytt. Ég held hins vegar að það sé áhyggjuefni ef ekki rætist úr á þessum vettvangi milli samningsaðilanna, auðvitað verðum við að vona að þeir nái saman um niðurstöðu sem getur komið í veg fyrir átök og tryggt samfellt og gott skólastarf eins og allir hljóta að vona. Verkefnið er ekki á borði ríkisstjórnarinnar, það er á borði sveitarfélaganna og þeirrar launanefndar sem sveitarfélögin hafa sameiginlega komið á fót.

Ég vil segja það út af hugmyndinni sem hv. þingmaður gerði að umtalsefni og ættuð er frá bæjarstjóranum í Hafnarfirði varðandi gerðardóm eða þess háttar að allt sem getur leyst svona mál er auðvitað til góðs, hvaðan svo sem slíkar hugmyndir koma, en það verður þá að vera verkefni deiluaðilanna að koma sér saman um farveg ef þeir vilja fara einhverja aðra leið en þá hefðbundnu sem er auðvitað kjaraviðræður þeirra í milli.