133. löggjafarþing — 80. fundur,  28. feb. 2007.

fjárskuldbindingar ráðherra fyrir hönd ríkisins.

584. mál
[12:44]
Hlusta

Jón Kristjánsson (F):

Virðulegi forseti. Þær ásakanir hafa verið bornar upp í umræðum á Alþingi að hreyfi ráðherra sig síðasta missirið fyrir kosningar sé hann búinn að breyta ráðuneytinu í kosningaskrifstofu. Ég hef hlustað á þessar ræður undanfarið. Ég var einn af þeim sem fyrir síðustu kosningar var eitthvað skrifað um að væru óvenjuduglegir síðustu mánuðina þannig að ég man vel eftir þessu. Það eru tvær ástæður fyrir því, annars vegar að ráðherra kann að vera að klára einhverja hluti sem hann hefur verið að vinna að og hins vegar vilja gjarnan þeir sem eru í viðskiptum við ráðuneytið klára einhverja hluti fyrir kosningar. Hæstv. forsætisráðherra hefur svarað ágætlega hinni lagalegu hlið málsins en ég er bara að segja reynslusögu af hinni praktísku hlið málsins. Það er alveg af og frá að ráðuneytið sé kosningaskrifstofa þrátt fyrir undirskriftir og skóflustungur.