133. löggjafarþing — 80. fundur,  28. feb. 2007.

hækkun raforkugjalda.

563. mál
[13:35]
Hlusta

Lúðvík Bergvinsson (Sf):

Virðulegi forseti. Það verður að teljast mikil bjartsýni hjá hv. þm. Kristjáni L. Möller að gera ráð fyrir að fá svar við spurningum af þessum toga á lokaspretti þeirrar ríkisstjórnar sem nú situr, enda sú ríkisstjórn búin að sitja lengi og lítið sem ekkert gert í þessum efnum.

Hæstv. ráðherra nefndi kannski lykilorð í ræðu sinni áðan þegar hann sagði að verið sé að leita eftir því að raforkan sé seld á raunkostnaði. Þá hlýtur að vakna sú eðlilega spurning: Hvernig stendur á því að hún hækkar sífellt þegar bæði virkjanir og línur ættu að vera meira og minna afskrifaðar miðað við tíma? Hvernig stendur á því að verð á raforkunni skuli ekki lækka og flutningskostnaðurinn lækka þegar um er að ræða mannvirki sem löngu eru afskrifuð, jafnvel orðin 40, 50 ára gömul?

Virðulegi forseti. Ef við erum að tala um raunkostnað hljóta (Forseti hringir.) menn að þurfa að taka tillit til þess að verið er að framleiða raforkuna og flytja hana um mannvirki sem mörg hver hafa verið löngu afskrifuð.