133. löggjafarþing — 80. fundur,  28. feb. 2007.

Marco Polo áætlun Evrópusambandsins.

608. mál
[14:43]
Hlusta

samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson) (S):

Virðulegur forseti. Ég vil undirstrika það svo að sá misskilningur sé ekki á ferðinni hér, að það eru engir sjóðir sem við Íslendingar getum sótt í á vegum Evrópusambandsins sem heita „sjóðir Marco Polo áætlunar“, það liggur alveg ljóst fyrir. Það virðist vera talað um það eins og því sé þannig farið.

Sjóflutningar lögðust af við ströndina vegna þess að flutningafyrirtækin töldu það ekki hagkvæmt og eins og fram kom áðan völdu viðskiptaaðilarnir ekki þann kost að nýta sér sjóflutningana. Ég hef síður en svo nokkuð á móti sjóflutningum. Norðmenn nota siglingar við ströndina á milli staða eins og við. Við erum með ferjur, Herjólf, Breiðafjarðarferjuna og Grímseyjar- og Hríseyjarferjuna, þar eru styrktar siglingar. Með sama hætti eru Norðmenn með styrktar siglingar, farþega- og flutningasiglingar til afskekktustu staðanna þannig að það er ekki ólíku saman að jafna.

Síðan held ég að það verði að minnast þess líka að það að ætla að fara að setja upp sjóflutningakerfi og byggja á gömlu pakkhúsunum eins og var þegar haust- og vorskipið kom og ætla að geyma alla sekkina á milli skipaferða er liðin tíð, tíminn hefur breyst. Engu að síður, ef það er hagkvæmt að sigla með flutningana er það markaðurinn, fyrirtækin sem kaupa þjónustuna sem velja sér hagstæðustu leiðina. Skipafélögin eru vonandi stöðugt að skoða þessa kosti, ef þeir eru til staðar, að bjóða upp á ódýra flutninga. Það hefur verið boðið upp á það, Atlantsskip hefur verið að auglýsa eftir viðskiptaaðilum. Ég vona svo sannarlega að þeir nái viðskiptasamningum um sjóflutninga ef það gæti orðið til þess (Forseti hringir.) að lækka flutningskostnaðinn á Íslandi. En Marco Polo áætlunin (Forseti hringir.) er áætlun um millilandasiglingar í Evrópu.