133. löggjafarþing — 83. fundur,  1. mars 2007.

þjónustusamningur við SÁÁ – virkjunarframkvæmdir í neðri Þjórsá.

[10:51]
Hlusta

Þuríður Backman (Vg):

Hæstv. forseti. Ég vil taka undir áhyggjur þingmanna um stöðu SÁÁ, og eins og fyrirspurn hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar bar með sér, bæði hvað varðar samningsleysi stofnunarinnar, sem hefur verið frá 2005, og eins hina löngu biðlista þeirra sem bíða meðferðar á stofnuninni.

Eins og við vitum er SÁÁ annar helsti meðferðaraðili bæði í bráðamóttöku og framhaldsmeðferð áfengis- og vímuefnasjúklinga. Það er mjög vel að þessari meðferð staðið hjá SÁÁ. Þeirra orðstír hefur borist út fyrir landsteinana fyrir góðan árangur enda eru fagleg vinnubrögð og fagleg meðferð inni á stofnuninni. Það er óþolandi að sú staða skuli vera uppi að ekki skuli vera gildandi samningur og það er ljóst að þörfin er mikil. Ég hvet hæstv. ráðherra til að horfa nú fram hjá þeirri bindingu sem hún telur vera hvað varðar afgreiðslu fjárlaga til SÁÁ og fara í þá vinnu að gera þarfagreiningu, fara yfir fagleg störf SÁÁ og gera samning með tilliti til þessa. Þörfin er mikil.

Þar sem það er 1. mars í dag og hér var minnt á það af hv. þingmanni að 1. mars innleiddum við bjórinn, vil ég hvetja þá þingmenn sem tala fyrir því að gera sölu á bjór og léttum vínum aðgengilegri, t.d. með því koma þeim inn í matvöruverslanir, til að hafa stöðu SÁÁ og þann mikla vímuefnavanda sem við er að etja til áminningar um að fara varlega hvað varðar aðgengi að léttvíni (Forseti hringir.) og bjór sem leiðir svo til neyslu sterkari drykkja og sterkari vímuefnanotkunar.