133. löggjafarþing — 83. fundur,  1. mars 2007.

varnir gegn landbroti.

637. mál
[12:38]
Hlusta

landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þm. Jón Bjarnason er í blekkingaleik. Hann er búinn að halda hér langa ræðu og stærsti hluti orðaflaumsins hefur snúist um að til standi að einkavæða vatnið. Hann veit það með sjálfum sér að þetta er rangt, vatnið var ekki og verður ekki einkavætt. Verið er að breyta vatnalögum frá 1923 og færa þau til nútímans. Þetta er orðaleikur og útúrsnúningar sem þekktir eru frá umræðunni í fyrra og ég þarf ekki að fara út í það. Ég sé hvernig hv. þingmaður reynir að stimpla það inn aftur og aftur að lögin hafi leitt það af sér að vatnið var einkavætt. Vatnið var ekki og verður aldrei einkavætt. Vatnalögin voru endurskoðuð, þau eru búin að vera í gildi frá 1923. Allir vita að vatnið var ekki einkavætt 1923 og það var ekki einkavætt með breytingunum.

Hins vegar er óskaplega gaman að hlusta á hv. þingmann. Hann er í langminnsta þingflokki þingsins, Vinstri grænum, sem er minnsti þingflokkurinn á Alþingi Íslendinga, talar mest í öllum málum og fer mikinn. Sumir kalla þá verðbólgugræna og þeir muni, ef þeir komast til valda, setja eitt stórt stopp á Ísland. Það hvarflar því ekki að mér að þjóðin vilji leggja þann mikla framgang og þau stóru atriði sem eru á dagskrá á Íslandi í hendur flokks sem stendur gegn öllu og segir stórt stopp við öllum framkvæmdum. Þetta er því orðaleikur og útúrsnúningar.

Hins vegar eru Vinstri grænir ágætur stjórnarandstöðuflokkur. Þeir eru það í öllum þjóðlöndum, þeir eru stjórnarandstöðuflokkur og fara oft mikinn. Það er auðvitað fyrirkvíðanlegt ef þeir verða 15 í þinginu.