133. löggjafarþing — 83. fundur,  1. mars 2007.

varnir gegn landbroti.

637. mál
[14:45]
Hlusta

Kristinn H. Gunnarsson (Fl):

Virðulegi forseti. Mál þetta sem hér er til umræðu má segja að sé arfur frá fyrri tíð, það eigi að reyna að ljúka því að ná niðurstöðu í mál sem kom upp á síðasta vetri og þess freistað að niðurstaðan verði með þeim hætti að engar breytingar hafi orðið þegar upp er staðið þrátt fyrir lagasetninguna um vatnalögin eins og hér hefur verið minnst á.

Ég geri ekki ágreining við hæstv. ráðherra um efni málsins, að landbrotsvarnirnar heyri undir landbúnaðarráðherra, og tel í sjálfu sér ekki ástæðu til að tefja fyrir framgangi málsins í þingsölum. Menn geta haft ýmsar skoðanir á því hvort vatnalögin nái því nokkurn tímann að taka að fullu gildi en eins og menn vita hefur stjórnarandstaðan lýst þeim áformum sínum að afnema þessa lagasetningu hafi hún tök á því eftir kosningarnar í vor.

Ég tel málið ekki af þeirri stærðargráðu að það sé ástæða til að fara í miklar landamæradeilur á milli ráðuneyta eða skipa sér í sveitir með öðrum ráðherranum og á móti hinum. Ég held að þingið eigi ekki að blanda sér í slíkar deilur. Hins vegar finnst mér meiri ástæða til að velta fyrir sér á þessu stigi hvort ekki sé rétt að breyta Stjórnarráðinu. Ég hef lengi verið á þeirri skoðun að gera þurfi breytingar á skipan ráðuneytanna og það er greinilegt að ráðuneytin eru orðin mjög misjafnlega umfangsmikil í dag. Breytingar hafa orðið eins og menn þekkja, árið 1989 var stofnað umhverfisráðuneyti í harðri andstöðu við sjálfstæðismenn sem lágu í margra vikna málþófi og lásu upp úr bókum frá upphafi til enda til að koma í veg fyrir að umhverfisráðuneyti yrði stofnað. Það er eðlilegt að rifja það upp og gefa sjálfstæðismönnum færi á því að útskýra andstöðu sína við þá breytingu á þeim tíma. Ég held þó að þetta megi heita meira sagnfræði í dag, það séu ekki deilur um það hvort umhverfisráðuneytið verði til. Það hefur tekið breytingum. Umhverfisráðuneytið er að verða æ viðameira og ég spái því að það muni stækka enn þegar fram líða stundir, bæði að verkefnum og mannafla. Straumarnir liggja þannig í stjórnmálunum að menn horfa meira á úrlausn ýmissa málaflokka í þjóðfélaginu og þjóðmálunum út frá umhverfismálum og þess vegna vex þýðing umhverfisráðuneytisins. Að sama skapi verður þýðing einstakra atvinnuvegaráðuneyta minni og ef við skoðum einfaldlega tölur um stærð og umfang ráðuneyta eru sum þeirra afskaplega lítil svo að ekki sé meira sagt og það er varla hægt að segja að það sé fullt starf að vera ráðherra yfir þeim smæstu. Það er fyllsta ástæða til að huga að endurskipulagningu Stjórnarráðsins í þessu ljósi til að leitast við að viðfangsefnin verði nokkurn veginn svipuð að umfangi, stærð og ábyrgð og málum sé skipað með eðlilegum hætti á milli ráðuneyta. Það þýðir m.a. að umhverfismálaviðhorfið þarf að vera í einu ráðuneyti en atvinnumála- og nýtingarviðhorfið í öðru ráðuneyti þannig að hægt sé að fela umhverfisráðherra stjórn og úrlausn ákveðinna mála á heildarsviði án þess að hann sé bundinn af hagsmunum einstakra atvinnuvega. Ég held að það sé óþarfi og varla ástæða til þess lengur að halda úti sjálfstæðum atvinnuvegaráðuneytum, sérstaklega ekki í landbúnaðar-, sjávarútvegs- og iðnaðarráðuneyti. Þau eru öll orðin mjög lítil og ég hygg að það sé eðlilegt að sameina þau í eitt, kannski tvö ef við tökum viðskiptaráðuneytið með. Ég held að þær vangaveltur sem hér hafa komið fram um að landbúnaðarráðuneytið verði fljótlega lagt niður sem sjálfstætt ráðuneyti séu ekki alveg út í hött. Ég held að því verði óhjákvæmilega hrint í framkvæmd við ríkisstjórnarskipti, hvort sem það verður næst eða þarnæst.

Mig langar að spyrjast fyrir um eitt atriði í þessu frumvarpi til að það komi fram hvernig beri að skilja það. Það varðar 1. gr. 3. mgr. Eins og þeir sjá sem hafa kynnt sér efni frumvarpsins er í 1. mgr. fasteignareiganda veitt heimild til að verja land gegn spjöllum af landbroti eða árennsli vatns með því að víkka vatnsfarveg, breyta honum eða gera nýjan, og í 2. mgr. er þessum fasteignareiganda veitt heimild til eignarnáms til að hrinda þessum áformum sínum í framkvæmd. Í 3. mgr. birtist svo ráðherrann sjálfur og honum er falið að ráðast í framkvæmdir gegn landspjöllum, enda sé það gert til að „verja fasteignir eða önnur mannvirki sem varða almannaheill“. Mig langar að spyrja: Hvað er þetta víðtæk heimild? Hvenær á ráðherrann að beita henni? Á hann að beita sér samkvæmt þessu ákvæði ef um er að ræða einhver landspjöll sem eru að verða á einhverri landareign sem ríkið á ekki og jafnvel þótt landeigandi aðhafist ekkert? Gefur þetta þá ráðherra heimild til að grípa inn í gegn vilja landeiganda og jafnvel skyldu til að grípa inn í gegn heimild landeiganda og grípa til aðgerða til að vinna gegn landbroti? Mig langar að fá aðeins skýringar á því hvað þessi heimild ráðherra í 3. mgr. er víðtæk, mér finnst greinargerð frumvarpsins ekki skýra nægjanlega hversu víðtæk hún á að vera.

Ég vil svo segja eitt, virðulegi forseti, um það sem hér hefur verið töluvert rætt, ákvæði stjórnarsáttmálans um sjávarútvegsmál. Í honum segir, með leyfi forseta: „Ákvæði um að auðlindir sjávar séu sameign íslensku þjóðarinnar verði bundið í stjórnarskrá.“ Þetta er alveg skýrt og um þetta varð samkomulag milli stjórnarflokkanna, æðstu stjórnir beggja stjórnarflokkanna samþykktu samkomulag um að hrinda þessu í framkvæmd núna.

Það sem hefur gerst er að stjórnarskrárnefndin hefur í raun lokið störfum án þess að efna þetta ákvæði stjórnarsáttmálans. Það liggur algjörlega fyrir að það er ekki stjórnarandstaðan sem er að spilla fyrir því að það náist samkomulag um að efna þetta ákvæði stjórnarsáttmálans. Það eru stjórnarflokkarnir sjálfir sem eru að stöðva sína eigin yfirlýsingu. Það liggur ekkert fyrir um það að Sjálfstæðisflokkurinn sé að stöðva þetta mál, virðulegi forseti. Það hefur ekkert komið fram opinberlega frá fulltrúum Framsóknarflokksins um að Sjálfstæðisflokkurinn standi í veginum fyrir framkvæmd á þessu ákvæði sem flokkarnir urðu sammála um. Það liggur heldur ekki fyrir af hálfu sjálfstæðismanna að það séu framsóknarmenn sem stöðvi þetta. Það liggur yfir höfuð ekkert fyrir af hverju þetta ákvæði stjórnarsáttmálans nær ekki fram að ganga.

Stjórnarflokkarnir verða að skýra þjóðinni frá því hvað veldur því að þeir beri ekki fram eigin tillögu. Hvað veldur því að þeir efna ekki það sem þeir hafa lofað? Um það snýst málið. Það hefur ekki komið fram. Það er farið að undirbúa frumvarp um breytingu á stjórnarskránni og þetta ákvæði er ekki þar. Það er hins vegar verið að undirbúa það að breyta stjórnarskránni þannig að það verði erfiðara en núna er að koma nýju ákvæði inn í stjórnarskrána. Í dag er nægjanlegt að það sé einfaldur meiri hluti á Alþingi fyrir kosningar og einfaldur meiri hluti á Alþingi eftir kosningar fyrir tiltekinni breytingu og þá nær hún fram að ganga. Núna er verið að leggja kjölinn að því að breyta þessu þannig að það þurfi samþykki tveggja þriðju alþingismanna til að stjórnarskrárbreyting eigi möguleika á að ná fram að ganga. Það er verið að setja erfiðari skilyrði en eru í dag til að breyta stjórnarskránni og það er verið að fela Sjálfstæðisflokknum neitunarvald á allar stjórnarskrárbreytingar nái þessar hugmyndir fram að ganga. Á meðan Sjálfstæðisflokkurinn hefur þriðjung atkvæða og a.m.k. 21 þingmann getur hann stöðvað allar stjórnarskrárbreytingar í framtíðinni ef þessi drög verða lögð fram eins og þau litu út í gær.

Hvað á það að þýða, virðulegi forseti, að ætla sér að breyta stjórnarskránni þannig að Sjálfstæðisflokkurinn fái neitunarvald, hann geti neitað því að samþykkja stjórnarskrárbreytingu og geti komið í veg fyrir að þjóðin fái að kjósa um stjórnarskrárbreytingu eins og var þó yfirlýstur tilgangur þessarar breytingar?

Virðulegi forseti. Menn verða að skýra þetta. Ég get ekki skýrt þetta öðruvísi en svo að stjórnarflokkarnir séu ekki aðeins að hlaupa frá eigin yfirlýsingu um stjórnarskrárákvæði um auðlindir hafsins, heldur ætla þeir sér að breyta stjórnarskránni þannig að það verði enn erfiðara en er í dag að koma þessu ákvæði inn. Það er sem sé unnið í öfuga átt. Það er ekki bara verið að heykjast á því að efna það sem menn hafa lofað, það er líka verið að reyna að koma breytingum í gegn sem gera mönnum erfiðara síðar að koma þeim á.

Hæstv. landbúnaðarráðherra lýsti því yfir í hádeginu — ég heyrði það í þingsalnum — að framsóknarmenn mundu gera kröfu til þess að stjórnarsáttmálinn yrði efndur. Ég efa það ekki, virðulegi forseti, að þeir munu gera kröfu til þess svona rétt fyrir kosningar. En þeir munu ekki gera kröfu til þess að þessu verði hrint í framkvæmd. Þeir munu leka niður í þessu máli, þetta er sjónarspil til að blekkja fólk. Ef menn meina eitthvað með því sem þeir skrifa undir í stjórnarsáttmála og lofa sjálfum sér og öðrum standa þeir við það. Ef ekki er staðið við stjórnarsáttmálann þá slíti hann ríkisstjórninni. Ef landbúnaðarráðherra fer með rétt mál, að flokkur hans gerir kröfu til að við þetta verði staðið, spyr ég: Hvernig stendur á því að hann hefur öll þessi ár og allar þessar vikur þar sem unnið hefur verið að undirbúningi stjórnarskrárbreytingarinnar unað því að málið næði ekki fram að ganga? Við því er bara eitt svar: Hann ætlar að una því að ekki verði breytt. Það er jafnvel ekki víst að Framsóknarflokkurinn vilji að þessu verði breytt. Þeir eru nefnilega margir, bakhjarlarnir úr kvótaliðinu sem segja við hæstv. landbúnaðarráðherra að þeir vilji ekki að þetta verði þjóðareign, bæði úr Suðurkjördæmi og víðar. Það er nefnilega og hefur verið undanfarin ár leynt og ljóst unnið að því af hálfu LÍÚ að fá fiskveiðiréttindin viðurkennd sem einkaréttindi. Þeir hafa haldið ráðstefnur í því skyni, flaggað þar lögfræðiálitum og talað mjög skýrt í þeim efnum. Þeir leggjast á móti þessu ákvæði. Hvernig stendur á því að þessir hæstv. ráðherrar eru enn þá ráðherrar í ríkisstjórninni ef þeir meina að þetta eigi að fara fram? Strax og það varð ljóst að Sjálfstæðisflokkurinn ætlaði að stoppa málið áttu þeir að slíta ríkisstjórninni, að sjálfsögðu, en þeir sitja. Það vita sjálfstæðismenn og þeir munu héðan af ekki slíta ríkisstjórninni, jafnvel þó að Sjálfstæðisflokkurinn bregði fæti fyrir málið þessa fáu daga sem eftir eru þings. Auðvitað ekki. Fyrst þeir fóru ekki þegar fyrir lá að það yrðu vanefndir hafa þeir enga stöðu til að fara héðan af. Þetta er sjónarspil hjá hæstv. landbúnaðarráðherra. Hann er búinn að taka þátt í því að samþykkja það að þetta verði ekki efnt og það gerði hann þegar hann ákvað að sitja áfram sem landbúnaðarráðherra eftir að honum varð ljóst að ekki stæði til að þetta ákvæði yrði látið ná fram að ganga. Það er blekkingin sem hæstv. landbúnaðarráðherra er að reyna að bera fyrir þingheim. Það er ekki stórmannlegt, virðulegur forseti.

Hæstv. landbúnaðarráðherra og flokksmenn hans vita að þeir geta fengið þetta mál í gegnum þingið núna með stuðningi stjórnarandstöðunnar. Það er þeirra að ákveða hvort þeir vilji þiggja það eða frekar sitja í ríkisstjórninni með Sjálfstæðisflokknum og málið fari ekki fram. Ef það er eitthvert sannleikskorn í því að krafan sé núna reist um að þetta verði efnt, hvaða skilyrði setja þá sjálfstæðismenn fyrir því að verða núna við kröfunni? Halda menn að sjálfstæðismenn muni kaupa það ókeypis að hleypa þessu ákvæði fram núna eftir að framsóknarmenn eru búnir að sætta sig við að það nái ekki fram að ganga? Nei, menn skulu ekki láta sér detta það í hug. Spurningin er bara: Hver er verðmiði sjálfstæðismanna á því að þetta nái fram að ganga? Það sjáum við næstu daga. Kannski er verðmiðinn sá að búa til svo flókna stjórnarskrárbreytingu að ekki verði hægt að ná fram breytingu á stjórnarskrá, hvorki um þetta atriði né annað án samþykkis Sjálfstæðisflokksins, að menn selji Sjálfstæðisflokknum um ókominn tíma sjálfdæmi um það hvernig stjórnarskrá lýðveldisins líti út. Er það verðið sem Sjálfstæðisflokkurinn setur upp, virðulegi forseti? Það má færa fyrir því nokkuð góð rök miðað við þau drög sem liggja fyrir þinginu þessa dagana.

Virðulegur forseti. Það gefst örugglega tækifæri til að ræða þetta frekar síðar en ég gat ekki staðist það að blanda mér inn í umræðu um stjórnarsáttmálann vegna þess hvernig aðdragandi málsins var að því að þetta ákvæði fór á annað borð inn í hann.