133. löggjafarþing — 83. fundur,  1. mars 2007.

yfirlýsing gegn stuðningi við innrásina í Írak.

13. mál
[15:53]
Hlusta

iðnaðarráðherra (Jón Sigurðsson) (F):

Hæstv. forseti. Þetta er fjarskalega undarleg umræða. Í Írak þjást milljónir. Umræðan er greinilega ekki um þá þingsályktunartillögu sem liggur fyrir og er að nafninu til til umræðu heldur eru menn að slá innanríkispólitískar keilur á kostnað Framsóknarflokksins. Umræðan er flutningsmönnum tillögunnar til skammar. Ástandið er þannig í Írak að það á að sýna því meiri virðingu en að nýta það aðeins og einvörðungu til að slá keilur sem Svíar kalla „inrikes/utrikespolitik“, þ.e. að rugla hlutum saman til að koma höggi á einhverja allt aðra aðila.

Þingsályktunartillöguna ætla ég hins vegar að ræða nánar. Hún byggist á miklum misskilningi. Listinn yfir staðfastar þjóðir, sem svo er kallaður, er einfaldlega einhliða framsetning Bandaríkjamanna. Með þingsályktunartillögunni er verið að veita þeim lista formlegt vægi og gildi hér á landi. Íslendingar eru hins vegar sjálfstæð þjóð með sjálfstætt ríki, sjálfstæða löggjöf og sjálfstætt stjórnkerfi og það verður að andmæla því að einhvers konar fréttatilkynningar frá Hvíta húsinu á sínum tíma, 2003, séu látnar fá eitthvert lögformlegt gildi í afgreiðslu Alþingis. Það er langeðlilegast að svara þessum svokallaða lista með pólitískum yfirlýsingum stjórnmálamanna og það hef ég gert. Þingsályktunartillagan byggist hins vegar á hreinum misskilningi.

Ég get endurtekið það sem ég hef sagt áður, bæði hér og á öðrum vettvangi. Ég tel eftir athugun málsins í sumar og haust að ákvarðanir sem teknar voru um afstöðu Íslendinga til Íraksmála árið 2003 hafi verið rangar eða mistök. Ákvarðanaferlinu var ábótavant og það hefur verið upplýst. Það er mjög mikilvægt að vanda allan undirbúning ákvarðana í þessum efnum og þátttöku í alþjóðamálum, ég tala nú ekki um deilumálum, og þá er mjög mikilvægt að lögmætar stofnanir séu hafðar með í ráðum eins og t.d. utanríkismálanefnd Alþingis.

Ég endurtek það að þessi listi um staðfastar þjóðir — ég hef lesið hann — er aðeins fréttatilkynning frá Hvíta húsinu á sínum tíma. Hann tilheyrir liðnum tíma og hann hefur ekkert formlegt gildi á Íslandi. Eðlilegasta svarið við honum eru pólitískar yfirlýsingar stjórnmálamanna og stjórnmálaflokka. Ég hef gert það fyrir mitt leyti og tillaga liggur fyrir flokksþingi framsóknarmanna á morgun um að Framsóknarflokkurinn geri það líka opinberlega fyrir sitt leyti. Það er mjög mikilvægt fyrir okkur að festast ekki í liðnum tíma eins og hér er gert. Við þurfum að læra af mistökum, draga réttar ályktanir af þeim, bæta stjórnsýslu okkar og vanda hana eftir öllum föngum. Alþingi hefur samþykkt fjárveitingar og það var spurt um þær hér. Eftir þeim upplýsingum sem ég hef voru þetta flutningar til endurreisnarstarfs og þjálfunarstarfa. Alþingi hefur líka samþykkt og ítrekað stuðning við ályktanir Sameinuðu þjóðanna og það kemur reyndar fram í þessari fráleitu fréttatilkynningu Hvíta hússins sem verið er að reyna að glæða einhverju lögformlegu gildi á Íslandi.

Nú skiptir langmestu máli að hraða því að íbúar og þjóðir Íraks öðlist fullt sjálfsforræði og koma í veg fyrir átök við Íran. Íslendingar eiga að styðja alþjóðasamfélagið í þessu og við skulum bjóða öllum stjórnmálaflokkum á þingi og öllum öðrum aðilum til fulls samstarfs um það. En ég vara við því að farið sé fram með það að veita fréttatilkynningum Hvíta hússins í Bandaríkjunum lögformlegt gildi á Íslandi. Það á ekkert erindi hingað.