133. löggjafarþing — 83. fundur,  1. mars 2007.

réttarstaða liðsafla aðildarríkja Atlantshafsbandalagsins o.fl.

655. mál
[20:47]
Hlusta

heilbrigðisráðherra (Siv Friðleifsdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Af því að ég er að reyna að halda umræðunni við sjálfan samninginn sem við erum að ræða hér vil ég benda á að Bandaríkjamenn hafa notið þessarar réttarstöðu hér á grundvelli varnarsamningsins um áratugaskeið. Nú erum við að útvíkka hana til annarra NATO-ríkja sem er að sjálfsögðu eðlilegt að gera svo framarlega sem við styðjum yfirleitt samstarf í NATO.

Varðandi það hvernig rætt er um starfsemi okkar á erlendum vettvangi tel ég það gefa mjög skakka mynd af því ágæta uppbyggingarstarfi, sem við tökum taka þátt í, að kalla það hreinsideild, því jákvæða starfi þar sem við komum til aðstoðar þegar ýta þarf á eftir lýðræðisþróun og stöðugleika í ríkjum þar sem lítill stöðugleiki er uppi. Ég tel að friðargæslan okkar sinni mjög mikilvægu starfi og það jaðri við vanvirðu að kalla hana einhverja hreinsideild. Ég held að þessi störf séu unnin af mikilli samviskusemi og fórnfýsi og séu þess eðlis að það fólk sem vinnur þau láti mjög gott af sér leiða. Ég vil ekki taka undir þau orð sem hér hafa verið notuð um þessa starfsemi, að þetta sé einhvers konar hreinsideild.