133. löggjafarþing — 83. fundur,  1. mars 2007.

losun gróðurhúsalofttegunda.

641. mál
[22:58]
Hlusta

umhverfisráðherra (Jónína Bjartmarz) (F) (andsvar):

Herra forseti. Það liggur ekkert fyrir hvað tekur við eftir 2012. Eitt markmiðið með þessum reglum og til að sýna hvaða takmarkanir fyrirtækjum eru sett er það að fyrirtæki geti áttað sig á því — eins og hv. þm. Jóhann Ársælsson benti á, þetta eru dýr fyrirtæki, þetta er mikil uppbygging — að losunarheimildunum eru takmörk sett. Það er alveg hárrétt.

Hins vegar vil ég árétta það sem ég sagði áðan að ekki verður heimilt að selja þessar heimildir. Það er undanskilið í Kyoto-bókuninni. Við getum ekki selt þessar heimildir sem við höfum. Ekki heldur heimildir sem tilheyra almenna ákvæðinu vegna þess að það reynir ekki á íslenska ákvæðið fyrr en í nokkurs konar yfirfalli. Það tekur ekki til stóriðjunnar fyrr en búið er að fullnýta almenna ákvæðið. Það er því undanskilið í þessu öllu, það er ekkert hægt að selja af þeim heimildum sem þessi fyrirtæki eiga. Hins vegar er gert ráð fyrir að atvinnurekstur geti útvegað sér losunarheimildir ef hann fær ekki úthlutað nægilega miklu vegna þeirra losunar sem þetta tiltekna fyrirtæki stendur fyrir.

En við erum ekki að koma á viðskiptakerfi vegna þess að íslenska ákvæðið beinlínis bannar það. Það er heldur ekki tilgangur að setja á fót kerfi eignarkvóta eða viðskipti með nokkurs konar eignarkvóta, heldur einungis að tryggja að losun koldíoxíðs frá þessum aðilum verði ekki meiri en heimildir Íslands samkvæmt Kyoto-bókuninni leyfa.