133. löggjafarþing — 84. fundur,  8. mars 2007.

framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum.

669. mál
[16:46]
Hlusta

landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil til upplýsingar upplýsa hæstv. forseta um það að ég var að hlusta á ræðu hv. 7. þm. Norðaust., Einars Más Sigurðarsonar. Ég var að fara yfir þá áróðurstækni sem hann er að reyna að beita, alltaf að tengja umræðuna um landbúnaðinn við hátt matvælaverð. Allt verðlag á Íslandi er hátt. Lífskjör á Íslandi eru góð. Landbúnaðurinn ber ekki ábyrgð á því eins og íslenskir neytendur, yfir 70%, segja hiklaust í skoðanakönnun. Þetta vil ég hafa á hreinu.

Ég tek undir með honum að auðvitað er það sameiginlegt verkefni að lækka verðlag, verðlag á matvælum. Ríkisstjórnin steig þar stórt skref núna 1. mars. Í kreppu ríkisstjórnar sem ég man eftir og studdi, þar sem Jón Baldvin Hannibalsson var fjármálaráðherra, urðu menn að taka upp matarskattinn af því að ríkið hafði ekki tekjur. Þrátt fyrir það urðu menn að skera niður allt til öryrkja og sjúklinga og voru í standandi vandræðum í íslensku samfélagi. Nú er ríkissjóður þannig staddur að hann er nánast skuldlaus og við getum verið að gera hluti eins og að gefa eftir 6–7 milljarða af matarskattinum og láta neytendur njóta þess að ég vona, og eins vörugjöld o.fl. Hér er verið að stíga skref í þeim efnum sem ég veit að munu hafa ágæt áhrif.

Ég hlustaði með opnum huga á ræðu hv. þingmanns og ég er ekki viss um að hv. þingmaður skilji sína eigin ræðu.