133. löggjafarþing — 84. fundur,  8. mars 2007.

framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum.

669. mál
[17:47]
Hlusta

Kristján L. Möller (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hef aldrei tekið eftir því áður hvað það hefði sæmt hæstv. landbúnaðarráðherra vel, ef hann hefði ekki farið í pólitíkina, að vera prestur, messað á sunnudögum eftir hádegismat og flutt boðskap sinn í kirkjunni, kristna trú og annað slíkt, sem ég er nokkuð viss um að hann mundi gera ágætlega, færi það sennilega betur en að boða boðskap hæstv. ríkisstjórnar sem oft og tíðum er þannig að ég hygg að hæstv. landbúnaðarráðherra fái vont bragð í munninn af.

Hann ræðir um frystikistur og hvað neytendur geta gert á haustin, safnað kjöti í kistur o.s.frv., gamansamur maður.

Við vorum nýlega á fundi fyrir norðan þar sem verið var að kynna hið stórkostlega átak Beint frá býli, og allt það. Hann ræddi um það, en ég verð að hryggja hæstv. landbúnaðarráðherra með því að segja að verð á hinu frosna kjöti, sem hann gerði að umtalsefni, hefur hækkað í þeirri athugun sem ég hef gert. Það er hærra í dag en það var síðasta haust. Hann nefndi lambalæri eða -hrygg sem menn ættu að hafa í matinn á sunnudögum, sem vafalaust margir gera, en þrátt fyrir virðisaukaskattslækkun hefur sú vara hækkað. Nú veit ég ekki hvort hæstv. landbúnaðarráðherra hefur skoðað það eða hvers vegna það er. Ég veit ekki hvers vegna það er en tek fram að þetta er óformleg könnun, en ég hygg að ég þurfi ekki í þessu stutta andsvari við hæstv. landbúnaðarráðherra að fara meira út í þetta vegna þess að við erum sammála um hvað lambakjötið er gott og við erum vonandi sammála um að bóndinn fær mjög lítið fyrir sinn hlut og að einhverjir aðrir taki mismuninn.