133. löggjafarþing — 84. fundur,  8. mars 2007.

framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum.

669. mál
[17:51]
Hlusta

Kristján L. Möller (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Þetta andsvar hæstv. ráðherra við mig er kannski meira út frá lífskjörum fólks. Hæstv. landbúnaðarráðherra hefur áður lýst því að það komi þannig út að allir hafi það gott á Íslandi. Það er sennilega rétt að margir hafa það gott, en ég vona að við séum sammála um það, ég og hæstv. landbúnaðarráðherra, að það er allt of stór hluti fólks hér á landi sem hefur það ekki gott. Lífskjör þeirra sem verst hafa það hafa versnað í tíð núverandi ríkisstjórnar. Fátækt hefur aukist, (Landbrh.: Rangt.) skattheimta af öldruðum og öryrkjum hófst í tíð ríkisstjórnarinnar, (Landbrh.: Rangt.) frá 1995. Það er rétt, virðulegi forseti. Aldraðir og öryrkjar borguðu ekki skatta af bótum sínum árið 1995 á fyrstu (Gripið fram í.) dögum ríkisstjórnarinnar. Þeir eru hins vegar að borga í dag, virðulegi forseti, sem nemur tveimur mánuðum af árstekjum sínum í skatt til ríkissjóðs og það er m.a. sú skattheimta, virðulegi forseti, sem hæstv. ríkisstjórn hefur notað og er að guma af að hafa verið að greiða niður skuldir ríkissjóðs. Það er sannarlega rétt að skuldir ríkissjóðs hafa lækkað vegna óheyrilegrar skattheimtu, skattheimtu m.a. af neyslusköttum og af skuldasöfnun Íslendinga. Íslendingar eru ein skuldsettasta þjóð í heimi ef ríkissjóður er tekinn frá. Ef við lítum til fólksins í landinu þá hafa skuldir stóraukist. Ríkissjóður hefur fitnað af tekjum af þeirri skuldasöfnun og það er þannig, virðulegi forseti. Í þessari lífskjaraumræðu minni og hv. varaformanns Framsóknarflokksins er staðreynd að gamla fólkið, margt hvert, hefur það skítt og hefur haft það verra í tíð núverandi ríkisstjórnar. Það er það sem við jafnaðarmenn viljum lagfæra. Við viljum fara í lífskjarajöfnuð og lagfæra kjör þeirra sem minnst mega sín í þjóðfélaginu. Það er verkefni næstu alþingiskosninga, að fella þá ríkisstjórn sem hæstv. landbúnaðarráðherra situr í nú, og farið hefur þá fé betra.