133. löggjafarþing — 86. fundur,  12. mars 2007.

bókhald fyrirtækja í erlendri mynt.

[15:07]
Hlusta

forsætisráðherra (Geir H. Haarde) (S):

Virðulegi forseti. Ég átti von á því að í þessum fyrirspurnatíma eins og tveimur hinum síðustu mundu þingmenn Samfylkingarinnar beina til mín spurningum um kjaramál kennara. Það vill nefnilega þannig til að nú hafa grunnskólakennarar og launanefnd sveitarfélaganna náð samkomulagi og ég átti von á því að þingmenn Samfylkingarinnar kæmu hér til að fagna slíku samkomulagi eins og þeir hafa mjög borið það mál fyrir brjósti.

Nei, Samfylkingin er sjálfri sér lík. Hún kemur ekki með slíka spurningu en ég vil nota tækifærið og lýsa ánægju minni með það samkomulag sem náðst hefur fyrir milligöngu ríkissáttasemjara um þetta atriði.

Hvað varðar spurningu hv. þingmanns er því til að svara að sú reglugerð sem fjármálaráðherrann gaf út var auðvitað til fyllingar á lögunum og um þetta mál hafði ekki áður verið gefin út nein reglugerð. Ég er sá ráðherra sem flutti þetta frumvarp á sínum tíma, þekki sæmilega vel til þessara mála og þess vegna er mér kunnugt um það að sú reglugerð sem út var gefin er í fullu samræmi við þessi lög og ekkert upp á það að klaga. Það sem málið snýst um er að skilgreina svokallaðan starfrækslugjaldmiðil þeirra fyrirtækja sem hafa kosið að nýta sér þann möguleika í lögum að gera upp í erlendri mynt. Það eru sem betur fer mjög mörg fyrirtæki sem hafa séð sér hag í því, reyndar flest hver í bandaríkjadollurum en allnokkur í evrum.

Reglugerð fjármálaráðherra gengur ekki út á neitt annað en að kveða skýrt á um það að starfrækslugjaldmiðillinn svokallaði skuli vera sá gjaldmiðill sem stærstur er og raunverulega er sá gjaldmiðill sem viðkomandi fyrirtæki notar en að viðkomandi fyrirtæki geti ekki valið sér einhvern gjaldmiðil úr einhverjum gjaldmiðlavendi eftir hentugleikum. Um það snýst þetta mál. Það er ekkert við reglugerð fjármálaráðuneytisins að athuga. Spurning þingmannsins, (Forseti hringir.) virðulegi forseti, var út í hött.