133. löggjafarþing — 86. fundur,  12. mars 2007.

stjórnarskipunarlög.

683. mál
[16:43]
Hlusta

Sigurður Kári Kristjánsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég hlustaði með athygli á ræðu hv. þm. Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur sem eyddi töluverðum tíma í að reyna að útskýra eða skilgreina merkingu hugtaksins þjóðareign, gerði það á þann hátt að um einhvers konar sölubann væri að ræða. Ég hef reyndar aldrei heyrt þá skilgreiningu áður á því hugtaki og geri ekki ráð fyrir að neinir fræðimenn á sviði lögfræði sem bera einhverja virðingu fyrir sjálfum sér eða greininni taki undir þá skilgreiningu. En gott og vel, hún er a.m.k. komin fram, og ef við gefum okkur að í þjóðareignarhugtakinu sé einhver merking langar mig til að spyrja hv. þingmann, vegna þess að ég heyrði að gríðarlegur áhugi var á því hjá þingmanninum að inn í stjórnarskrána yrði tekið einhvers konar ákvæði sem fjallaði um þjóðareign: Hverju vilja hv. þingmaður og Samfylkingin ná fram með því að setja í stjórnarskrá slíkt ákvæði? Hver er tilgangurinn með því að setja slíkt ákvæði í stjórnarskrána, að mati formanns Samfylkingarinnar? Ef við beinum sjónum okkar að fiskveiðistjórnarkerfinu, mundi Samfylkingin vilja styðja slíkt ákvæði til að breyta núverandi stjórnkerfi fiskveiða? Væri það t.d. til þess að nota slíkt ákvæði í baráttunni fyrir því að svokölluð fyrningarleið í sjávarútvegi yrði tekin upp á Íslandi sem mælir fyrir um það að aflaheimildir séu gerðar upptækar bótalaust? Væri það einn tilgangurinn með því að setja slíkt ákvæði í stjórnarskrá, eða hvað vakir fyrir Samfylkingunni og hv. formanni flokksins þegar hún mælir fyrir um að hún sé áhugasöm (Forseti hringir.) um að taka slíkt ákvæði um þjóðareign inn í stjórnarskrána?