133. löggjafarþing — 86. fundur,  12. mars 2007.

stjórnarskipunarlög.

683. mál
[16:47]
Hlusta

Sigurður Kári Kristjánsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég er í sjálfu sér sammála hv. þingmanni um að mikilvægt sé að skilgreina eignarhald á auðlindum í lögum. Það er ótækt að óvissa sé um hver eigi hvað og hver eigi ekki. Ég hlýt þó að gera þá kröfu til hv. þingmanns að hún skýri það út, fyrst hún er svo áhugasöm um að ákvæðið um þjóðareign sé tekið upp í stjórnarskrána, hver tilgangurinn með slíkri lögfestingu ætti að vera, t.d. í sjávarútvegi sem er nærtækt dæmi og sú atvinnugrein sem helst er rætt um í þessu sambandi.

Hver skyldi vera tilgangurinn með því að setja slíkt ákvæði í stjórnarskrána að mati hv. þingmanns og Samfylkingarinnar? Er hann hugsanlega sá að rústa núverandi fyrirkomulag (Forseti hringir.) stjórnkerfis fiskveiða eða er einhver annar tilgangur?