133. löggjafarþing — 86. fundur,  12. mars 2007.

stjórnarskipunarlög.

683. mál
[18:34]
Hlusta

Guðjón Ólafur Jónsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þm. Össur Skarphéðinsson mælti spaklegast allra hv. þingmanna stjórnarandstöðunnar sem hér hafa talað í dag. Hann gat þess að ekki yrði hreyft við afnotarétti manna af auðlindum. Það er í sjálfu sér rétt hjá hv. þingmanni. Slíkt er gert í almennum lögum. Vilji menn á annað borð hreyfa við afnotarétti þá gerist það annars vegar með eignaupptöku, sem ríkið þarf þá að bæta, eða með almennri eignaskerðingu, sem er bótalaus eins og Þorgeir Örlygsson og Sigurður Líndal hafa nefnt.

En hv. þingmaður gat þess að hægt væri að ná samkomulagi um málið og hann hefur gengið lengst allra þingmanna stjórnarandstöðunnar í að lýsa vilja til sátta í málinu. Ég fagna því að hann skuli snúa af vegi þess upphlaups sem hann stóð fyrir í síðustu viku. Þess vegna vil ég spyrja hv. þingmann hvort hann muni beita sér fyrir því að málið verði leyst í friði og sátt á næstu dögum.