133. löggjafarþing — 87. fundur,  13. mars 2007.

vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl.

686. mál
[15:24]
Hlusta

Kristján L. Möller (Sf):

Hæstv. forseti. Frumvarpinu sem hæstv. fjármálaráðherra hefur flutt, um breytingu á lögum nr. 29 frá 1993 um vörugjald af ökutækjum, eldsneyti og fleira, þá hefði ég kosið að hæstv. fjármálaráðherra væri hér. Ég hyggst spyrja hann nokkurra spurninga, bæði út í þetta mál og mál sem snúa að sama efni, þ.e. skattlagningu á tækjum, bifreiðum og öðru slíku. Ég óska eftir því að hæstv. forseti geri ráðstafanir til að hæstv. fjármálaráðherra verði viðstaddur, a.m.k. eftir smástund þegar ég kem að þeim kafla í ræðu minni.

Virðulegi forseti. Þetta frumvarp er ágætt. Það snýst um það að aflétta öllum vörugjöldum af bílum sem nota metangas, m.a. til að nota meira af því metangasi sem fellur til og safnast á höfuðborgarsvæðinu. Það er nú notað á í kringum fimmtíu bifreiðar sem allar eru á höfuðborgarsvæðinu. Þessu frumvarpi er ætlað að fjölga þeim um helming eða meira. Talað er um að nægjanlegt gas gæti fengist af sorphaugunum á Álfsnesi til að fullnægja þörfum 4.000 smærri ökutækja. Það er auðvitað besta mál. Metanið er mjög skæð gróðurhúsalofttegund, um tuttugu sinnum öflugri en koltvísýringurinn og því mjög gott að þetta verði beislað með mest og nýtt í bifreiðar sem hægt yrði að nota á höfuðborgarsvæðinu til þess að spara jarðefnaeldsneyti til samgangna.

Eins og ég sagði, virðulegi forseti, í stuttu andsvari mínu er metan aðeins selt á einni dælustöð á höfuðborgarsvæðinu. Það er að sjálfsögðu undanþegið eldsneytisgjöldum þannig að verð á metani er mjög hagstætt og svarar til þess að bensínlítrinn kosti tæpar 80 kr. í staðinn fyrir 120 kr. Enginn má skilja orð mín þannig að ég sé eitthvað andvígur málinu, ég ítreka og segi að þetta er hið besta mál. En ég vek jafnframt athygli á því að þetta gagnast ekki öllum landsmönnum. Þetta er ekki fyrir þá sem búa annars staðar en hér á höfuðborgarsvæðinu. Sú niðurfelling, sú ívilnun sem hér er gerð vegna metangasbílanna er aðeins fyrir höfuðborgarbúa.

Þess vegna hefði ég talið, eins og kom fram í andsvari mínu við ræðu hæstv. ráðherra áðan, að inn í þetta gætu blandast fleiri mál, fyrst framlengja á það ákvæði sem hér er inni til ársloka 2008, eins og talað er um, þegar ríkisstjórnin hefur lokið endurskoðun sinni á skattlagningu á bifreiðanotkun og bifreiðainnflutningi.

Ég hef talað um hina svokölluðu tvinnbíla. Ég mótmæli því sem hæstv. fjármálaráðherra sagði áðan, að þegar ríkisstjórn komi með eitthvað gott þá sé það rakkað niður eða óskað eftir meira. Ég er að tala um tvinnbílana út frá þessu jafnræðissjónarmiði. Þetta er verulegur afsláttur af vörugjöldum sem gagnast fyrirtækjum, eins og hér hefur komið fram, eins og Orkuveitu Reykjavíkur til að minnka kostnað hvað þetta varðar. En ég bendi á að þetta gagnast ekki öllum.

Ég tel að tvinnbílarnir hefðu átt að koma þarna inn. Bílar sem bæði ganga fyrir bensíni og rafmagni þótt hæstv. fjármálaráðherra segi að þeir séu ekki eins umhverfisvænir og metangasbílarnir. Það er rétt en það eru engu að síður bílar sem eru betri heldur en eingöngu bensínbílar eða eingöngu dísilbílar. Ég hygg að í framtíðinni muni rafmagnsbílar sennilega verða ofan á í leitinni að umhverfisvænum orkugjafa. Rafmagnsbílar munu gagnast mjög vel í bæjum og borgum. Þegar fólk kemur heim verður farartækinu einfaldlega stungið í samband um leið og bílnum er lagt. Hann verður hlaðinn til næsta dags meðan það er mjög takmarkað hvar maður fær keypt vetni eða metangas.

Þess vegna, virðulegi forseti, spurði ég hæstv. fjármálaráðherra hvers vegna tvinnbílar kæmu ekki þarna inn líka, þó að í fyrstu atrennu yrði ekki gengið eins langt, með fullkomna niðurfellingu vörugjalda en þó í átt að því. Ég spyr hæstv. fjármálaráðherra aftur hvort hann telji ekki fulla ástæðu til að koma til móts við þetta sjónarmið og taka tvinnbílana inn. Til að byrja með mætti stíga fyrsta skrefið í átt að því að lækka vörugjöld af þeim. Þeir eiga sannarlega að vera með lægri vörugjöld heldur en bensín- eða dísilbílar.

Fjármálaráðherra er þekktur fyrir að vilja fá mikla skatta í ríkissjóð. Hann vill ekki gefa mikið eftir og stundum þarf næstum því að taka á því með töngum, svo maður noti dýralæknamál. Ég spurði hví við notuðum ekki tækifærið á Alþingi og í ríkisstjórn, í þessu tilviki fyrir hennar hönd hæstv. fjármálaráðherra, efnahags- og viðskiptanefnd, umhverfisnefnd og við þingmenn, og gerðum þetta almennilega með því að skoða t.d. málið með vörugjöld af pallbílum sem eru fimm tonn og stærri, bílum sem flokkast sem vörubílar og bera ekkert vörugjald.

Við sjáum mikið af slíkum bílum á höfuðborgarsvæðinu og á þjóðvegum landsins, amerískum stórum og miklum bílum, bensínhákum sem eyða allt upp í 25 lítra á hundrað kílómetra, með slagrými 6 lítra og upp í 7,3 lítra. Það er í raun og veru rangtúlkun að kalla þetta vörubíla. Vörubílar til atvinnurekstrar hétu þeir áður og sú hugsun hefur haldist. Síðan hefur tækninni fleygt fram og bílarnir orðið stærri svo það er ekki alltaf vegna atvinnurekstrar að þessir bílar eru fluttir inn.

Virðulegi forseti. Mig langar að geta um að vegna vinnu minnar í samgöngunefnd við samgönguáætlun fékk ég hér sundurliðun frá Umferðarstofu á skráðum ökutækjum 31. desember 2006, eða við síðustu áramót. Þá kemur í ljós að það sem er flokkað sem B 15, vörubifreið 1, eru tæplega 5 þús. bifreiðar í landinu. Nú hef ég ekki nákvæmlega hvað það var fyrir nokkrum árum en ég er viss um að þessum bílum hefur fjölgað mjög. Ég tala nú ekki um, í framhaldi af því þegar vörugjöld af þessum bílum voru lækkuð og mikill innflutningur hófst. Síðan eru það sem kallað er vörubifreiðar 2 í umferðarskrá. Það eru stærri bílar og þar eru komnir tæplega 6 þús. bílar á umferðarskrá.

Virðulegi forseti. Þó ég sé ekki mikill talsmaður skattahækkana þá er engu síður, varðandi þessa litlu pallbíla, í sömu andrá og við erum að ræða vörugjöld af ökutækjum vegna stefnu um að að minnka losun gróðurhúsalofttegunda af samgöngum og bifreiðanotkun sem sannarlega er mikils vert og gott og verðugt verkefni. En þá verðum við að vera sjálfum okkur samkvæm og taka þessa pallbíla inn í. Þess vegna ítreka ég spurninguna um hvort hæstv. fjármálaráðherra vill ekki beita sér fyrir því að við skoðum þessi mál saman, þ.e. tvinnbíla í samhengi við þessa miklu bensínháka, litla pallbíla sem hafa flætt inn í landið.

Virðulegi forseti. Ég ætla að koma að öðru. Þar kemur að þeim þætti þar sem ég óskaði sérstaklega eftir nærveru hæstv. fjármálaráðherra vegna umræðunnar um vörugjöld. Eins og hér kemur fram er megintilgangurinn að auka notkun metangasbíla til að minnka losun gróðurhúsalofttegunda af samgöngum.

Slíkt hefur áður verið gert, virðulegi forseti, og þá á ég auðvitað við upptöku olíugjaldsins sem tekið var upp 1. júlí 2005, sem ég hef nokkrum sinnum áður rætt um. Ein af meginforsendum þess að leggja niður þungaskattskerfið og taka upp olíugjaldið var það að auka notkun dísilknúinna bifreiða á vegum landsins. Eins og kemur fram í flutningsræðu þáverandi hæstv. fjármálaráðherra, Geirs H. Haardes, voru það ein aðalrökin fyrir þeim breytingum.

Þessu átti m.a. að ná fram með því að dísilolían yrði töluvert ódýrari en bensínið sem yrði hvati til að kaupa dísilknúna bíla, fjölga þeim á íslenskum vegum og þar með minnka útgjöld þjóðarbúsins vegna eldsneytiskaupa. Þetta átti að vera ódýrara en bensínið en það hefur hins vegar ekki gengið eftir. Það verður að segjast að viljandi eða óviljandi voru rangar tölur notaðar um olíunotkun Íslendinga þegar olíugjaldið var ákveðið 45 kr.

Það er vert að hafa í huga, virðulegi forseti, að fyrst þegar olíugjaldsfrumvarpið kom fram, flutt af þáverandi hæstv. fjármálaráðherra, töluðu menn um olíugjald upp á 36,50 kr. sem hafði þá verið uppreiknað 39,50. En alltaf voru menn að leika sér með tölur sem ríkissjóður fékk af þungaskatti deilt í ímyndaða sölu af olíu og þannig varð olíugjaldið fundið. Það var ekki nóg með það heldur var olíugjaldið, þessar 45 kr., sett á og líka haldið áfram með þungaskattskerfið á tæki sem eru 10 tonn og þyngri. Þá kem ég að því sem ég vil spyrja hæstv. fjármálaráðherra út í og vona að hann svari á eftir. Þetta háa olíugjald hefur gert það að verkum að olían hefur, nánast frá því að þetta var tekið upp, verið dýrari heldur en bensínið. Oft eru þetta nokkrar krónur. Í dag virðist verðið næstum því á pari þrátt fyrir að við höfum þrisvar tekið hér í gegnum Alþingi lækkun upp á 4 kr., komið olíugjaldinu niður í 41 kr. en samt sem áður er munurinn á olíu og bensíni óhagstæður.

Þetta hefur gert það að verkum, virðulegi forseti, að eitt af meginmarkmiðum olíugjaldsfrumvarpsins hefur ekki náðst. Þó svo að dísilbílum hafi eitthvað fjölgað þá eru þeir enn miklu færri hlutfallslega en í öðrum löndum sem við berum okkur saman við. Má ég líka minna á, virðulegi forseti, að dísilbílar eru yfirleitt töluvert dýrari heldur en bensínbílar.

Í samgönguáætlun kennir ýmissa grasa í fylgigögnum og viðbótarupplýsingum. Þar kemur m.a. fram í sambandi við tekjur af olíugjaldi að gert var ráð fyrir því að tekjur Vegagerðarinnar mundu lækka talsvert frá því sem verið hafði. Þess vegna hækkaði núverandi ríkisstjórn á sama tíma bensíngjaldið, um 6 eða 7%, ef ég man rétt, til að vega upp á móti áætluðu tekjutapi vegna olíugjaldsbreytinganna. Í gögnum sem fylgja samgönguáætlun kemur fram hver reynslan var af fyrsta ári olíugjaldsins, og nú bið ég hæstv. fjármálaráðherra að taka vel eftir vegna þess að ég ætla að spyrja hann hvernig í ósköpunum þetta gat gerst.

Reynslan af fyrsta ári olíugjaldsins er sú að tekjur hafa orðið mun meiri en áætlað var. Það var gert ráð fyrir því að salan gæti numið um 74 millj. lítra á ári en sölutölur á fyrsta árinu sýna að salan var rúmlega 125 millj. lítra eða 70% meira en áætlað hafði verið, meira en 70% meira. Salan fór úr 74 millj. lítrum sem voru tölurnar sem fjármálaráðuneytið notaði þegar það var að deila í selda olíulítra til að finna út hvað olíugjaldið ætti að vera á lítra. (Gripið fram í: Þetta eru lægstu skattar í Evrópu.) Virðulegi forseti. Þetta hefur gert það að verkum að olían er dýrari en ætlað var þannig að dísilbílum hefur ekki fjölgað eins og ætlað var. Megintilgangur þessa frumvarps, sem ég er að fjalla um, hefur því ekki náðst, þ.e. að minnka losun gróðurhúsalofttegunda í andrúmsloftið. Þetta blandast inn í málið þegar ríkisstjórnin kemur með mál eins og þetta, þegar ríkisstjórnin setur fram fögur markmið og maður minnist þeirra markmiða sem ekki náðust með breytingunni á þungaskattskerfinu yfir í olíugjald.

Ég ætla ekki að lengja umræðuna, virðulegi forseti, með því að fara út í þetta. Ég veit að hæstv. fjármálaráðherra er mjög illa við að ræða um hvernig olíugjaldsbreytingin hefur farið út í verðlagið hvað varðar flutningskostnað og annað slíkt og er sérstaklega íþyngjandi fyrir íbúa landsbyggðarinnar, sem ég hef oft gert að umtalsefni. Á sama hátt munu metangasbílarnir sem hér er rætt um eingöngu gagnast á höfuðborgarsvæðinu.

Virðulegi forseti. Spurning mín til hæstv. fjármálaráðherra, út af þeim röngu gögnum sem unnið var út frá, varðandi selda lítra á olíu er þessi: Hvernig stendur á því að svona getur átt sér stað? Var það ekki þannig að olíugjaldið var sett of hátt af skattheimtumanni ríkissjóðs, hæstv. fjármálaráðherra? Þar af leiðandi hafa þau markmið sem áttu að nást með því að fjölga dísilbílum í landinu, þ.e. að minnka losun gróðurhúsalofttegunda, ekki náðst.

Virðulegi forseti. Ég hef trú á að hæstv fjármálaráðherra svari þessu á eftir, í lok umræðunnar og eins því sem ég spurði um áðan varðandi metangasbíla og notkun þeirra á höfuðborgarsvæðinu, hvort ekki væri sanngjarnt að taka tvinnbíla, rafmagns- og bensínbíla, hér inn en hækka um leið vörugjöldin af bensínhákunum, litlu pallbílunum sem ég hef gert að umtalsefni, sem menga alveg óstjórnlega mikið vegna þess hvað þeir eyða miklu bensíni. Ég hygg, virðulegi forseti, að hluti af vandanum sé að við erum að flytja inn notaða bíla frá Bandaríkjunum sem Bandaríkjamenn eru hættir að nota, sennilega vegna þess hve mikið þeir menga umhverfið.