133. löggjafarþing — 87. fundur,  13. mars 2007.

staða, stjórn og starfshættir þjóðkirkjunnar.

466. mál
[21:31]
Hlusta

Frsm. allshn. (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti um frumvarp til laga um breytingu á lögum um stöðu, stjórn og starfshætti þjóðkirkjunnar. Stafar nefndarálitið frá allsherjarnefnd sem hefur fjallað um málið og fengið til sín ýmsa gesti.

Í frumvarpinu er lagt til að íslenska ríkið afhendi þjóðkirkjunni til eignar prestssetur samkvæmt samkomulagi þar að lútandi frá 20. október 2006. Jafnframt er lagt til að biskupi Íslands verði fengið vald til að skipa sóknarpresta í embætti í stað dóms- og kirkjumálaráðherra eins og nú er.

Nefndin fagnar því að með frumvarpinu skuli vera leyst úr þeim ágreiningi sem verið hefur milli ríkis og kirkju um eignarhald á prestssetrum og leggur til að frumvarpið verði samþykkt, en þó gera þeir Ágúst Ólafur Ágústsson, Björgvin G. Sigurðsson og Sigurjón Þórðarson fyrirvara við nefndarálit nefndarinnar.