133. löggjafarþing — 88. fundur,  14. mars 2007.

almennar stjórnmálaumræður.

[20:58]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg):

Góðir Íslendingar. Við komum saman í skugga hins skelfilega slyss í mynni Ísafjarðardjúps. Ég votta aðstandendum sjómannanna tveggja mína dýpstu samúð.

Á kosningavori er eðlilegt að við þingmenn horfum yfir svið stjórnmálanna með tilliti til þess sem fram undan er á næstu vikum. Við vinstri græn teljum merkileg tækifæri liggja í þessum kosningum. Við blasa nýir tímar. Í hugum okkar flestra eru það spennandi tímar, tímar uppstokkunar og breytinga en umfram allt tímar tækifæra.

Við Íslendingar höfum að mörgu leyti verið heppin. Forlögin hafa farið um okkur nokkuð mjúkum höndum og margt í samfélaginu hefur gengið vel upp á síðkastið. Við sem störfum í stjórnmálum gerum það vegna þess að við viljum hafa áhrif á samfélagið, taka þátt í að bæta það sem er til staðar og greiða nýjum hugmyndum braut. Við teljum okkur hafa eitthvað til málanna að leggja og við viljum láta gott af okkur leiða. Oft erum við sammála um markmið og jafnvel leiðir. Þegar svo er vekur það sjaldnast mikla athygli en hins vegar er það yfirleitt fréttaefni þegar við tökumst á. Handhafar fjórða valdsins, fjölmiðlarnir, gera jafnvel út á það stundum að fá okkur til að munnhöggvast og slást en mér er til efs að málunum sem við berum fyrir brjósti sé slíkt til framdráttar. Það er miklu nær að það nái til fjöldans sem sett er fram af yfirvegun og stolti.

Við vinstri græn erum stolt af okkar stefnu. Við höfum lagt okkur fram um að koma okkar pólitík til skila á skýran og greinargóðan hátt og af skoðanakönnunum upp á síðkastið má sjá að kjósendur virðast kunna okkur þakkir fyrir þetta og við erum þakklát fyrir meðbyrinn þó að það verði auðvitað niðurstaða kosninganna sem á endanum skiptir máli. Það gleður okkur auðvitað að finna þetta jákvæða andrúmsloft og við leyfum okkur að líta á það sem viðurkenningu á því að við séum á réttri leið og að þau mál sem við setjum á oddinn séu mál málanna. Og hver eru þá mál málanna?

Öflugt velferðarsamfélag þar sem félagslegt jafnrétti ríkir og grunnþjónusta er gjaldfrjáls, kvenfrelsi sem tryggir að konur eigi jafnan aðgang og jafnan rétt í samfélaginu á við karla. Lykillinn að slíku samfélagi er að kynbundnum launamun verði útrýmt, að kjör kvennastétta verði bætt stórlega og tekið verði mið af þörfum barnanna og fjölskyldnanna við mótun samfélagsins.

Menningarmálin. Við höfum lagt áherslu á aðgengi að fjölbreyttum menntunartækifærum án skólagjalda og við höfnum ábyrgðarleysi stjórnarflokkanna sem sjá þau tækifæri helst í menntakerfinu að einkavæða það. Við teflum fram ögrandi hugmyndum að nýsköpun í atvinnulífi um land allt af að því að við teljum öflugar dyggðir vera sameiginlegt hagsmunamál þjóðarinnar. Kraftmikið og hugmyndaríkt starf frumkvöðla í ferðaþjónustu kemur upp í hugann til dæmis.

Efnahagslegur stöðugleiki er líka á dagskrá hjá okkur. Við viljum draga úr þenslu og leita jafnvægis á ný og réttlátt skattkerfi skiptir okkur máli, skattkerfi sem er öflugur burðarás samneyslunnar, skattkerfi sem er nýtt til tekjuöflunar og til að draga úr misskiptingu.

Síðast en ekki síst eru það grænu málin. Við vinstri græn höfum viljað koma hugmyndafræði sjálfbærrar þróunar á dagskrá og það hefur tekist. Skilningur fólks er að aukast á því hvernig umhverfismálin, samfélagsmálin og efnahagsmálin fléttast saman í eina órjúfanlega heild þar sem hver þáttur í vefnum skiptir jafnmiklu máli og enginn má bera annan ofurliði. Með öðrum orðum, ákvarðanir er varða okkur öll þurfa að taka jafnt tillit til þessara þátta. Ef björt framtíð á að blasa við börnunum okkar þá verður það í gegnum sjálfbæra þróun. Hinir flokkarnir hafa áttað sig á því að það þýðir ekki lengur að skila auðu í umhverfismálum og við vinstri græn fögnum því. Við erum sannfærð um að það verður kosið um grænu málin í vor og það verða þeir kjósendur sem eru tilbúnir að forgangsraða í þágu náttúruverndar sem ráða niðurstöðu kosninganna. Þeir kjósendur sem kjósa með grænni framtíð verða þeir sem ráða úrslitum. Þeir verða í sigurliðinu. Já, þetta eru málin sem við vinstri græn höfum lagt áherslu á. Þetta er það sem við stöndum fyrir og þjóðin virðist vera með á hreinu, hreinar línur.

Nokkur orð um stjórnarskrármál. Formenn stjórnarflokkanna kusu að fara leið sundurlyndis í því mikilvæga máli. Það lýsti mikilli skammsýni. Þingmál þeirra félaga fær falleinkunn hjá sérfræðingum og jafnvel þingmenn stjórnarflokkanna lýsa efasemdum. Við vinstri græn erum þess ekki fýsandi að náttúruauðlindir þjóðarinnar séu ofurseldar einkaeignarrétti, hvorki vatnið né fiskurinn. Við erum fylgjandi því að réttur þjóðarinnar til heilnæms umhverfis sé skilgreindur í stjórnarskrá, að öll eigum við rétt á að lifa í umhverfi sem er laust við heilsuspillandi mengun sem teflir lífsgæðum okkar í voða. Við teljum að veruleg lífsgæði séu fólgin í óspilltri náttúru. Þau verðmæti þarf að viðurkenna. Í hana sækjum við lífsfyllingu, unað og kyrrð. Allt þetta er okkur nauðsynlegt til að geta lifað innihaldsríku lífi. Það er sjálfsagt að leita leiða til að skilgreina þennan rétt en það þarf að gerast í sátt. Það er tímabært að við opnum augu okkar fyrir því sem raunverulega skiptir máli í lífinu. Fuglasöngur og öræfakyrrð eru þar á meðal, samverustundirnar með okkar nánustu, með fólkinu sem okkur þykir vænt um, með börnunum okkar og foreldrum okkar, eru þar á meðal og tíminn sem er alltaf af svo skornum skammti er þar á meðal. Stjórnmál þurfa að hafa pláss fyrir þessa þætti. Við þurfum að gefa okkur tíma til að njóta.

Góðir Íslendingar. Það eru nýir tímar fram undan, ný ríkisstjórn í spilunum. Við vinstri græn sjáum ótal tækifæri í kosningunum í vor. Við erum bjartsýn og við erum vongóð þegar við horfum til vorsins með sól í sinni og sól í hjarta, sannfærð um að það verður ekki bara Sól í Straumi í vor og ekki bara sól á Suðurlandi, það verður sól um allt Ísland. — Góðar stundir og græna framtíð.