133. löggjafarþing — 88. fundur,  14. mars 2007.

almennar stjórnmálaumræður.

[21:21]
Hlusta

Björgvin G. Sigurðsson (Sf):

Frú forseti. Góðir Íslendingar. Kosningarnar í vor eru sögulegt tækifæri fyrir ykkur til að velja nýja ríkisstjórn frjálslyndrar jafnaðarstefnu. Í þeirri ríkisstjórn gegnir Samfylkingin lykilhlutverki og ríkisstjórn hægri flokkanna biðst nú vægðar hjá almenningi en hún er ekki á vetur setjandi, henni verður að koma frá völdum.

Það er rótgróið viðhorf hjá flestum Íslendingum að þeir séu frjálsir einstaklingar og jafningjar hverra sem er að manngildi. Auður og vald, titlar og embætti fá þar engu um breytt. Þess vegna á frjálslynd jafnaðarstefna hljómgrunn á meðal landsmanna, henni fylgir andblær framfara og framsýnnar hugsunar. Henni fylgir ekki stjórnlyndi og forsjárhyggja heldur trú á getu einstaklingsins til að spjara sig sé jafnt gefið í upphafi. Í frjálslyndri jafnaðarstefnu felst sú meginskoðun að einstaklingurinn fái best notið sín í sanngjörnu, sterku samfélagi. Enginn er eyland og við njótum okkar best í góðum og heilbrigðum félagsskap á heimili, vinnustað eða vettvangi áhugamálanna.

Framleiðslan, þjónustan og smáreksturinn eiga sem mest að lúta samkeppnislögmálum en almannavaldið á í meginatriðum að annast mennta- og velferðarþjónustu og grunnveitu almannakerfisins, þar með talið að tryggja öllum Íslendingum aðgang að háhraðanettengingu frá heimilum sínum. Ríkisvaldið þarf jafnan að vera tilbúið að grípa inn í með lausnir þegar markaðurinn bregst og leysir ekki verkefnið sem honum var falið, t.d. við myndun sáttmála um nýtt jafnvægi á milli höfuðborgar og landsbyggðar.

Frelsi og velferð er megininntakið í frjálslyndri jafnaðarstefnu, þess vegna er hún uppspretta þekkingarleitar, nýsköpunar og félagslegra umbóta. Í samfélagi þekkingarinnar en menntunin eitt helsta jöfnunartækið og Samfylkingin mun beita sér fyrir því að hæfileikar allra nemenda verði virkjaðir og sem flestir Íslendingar sem þess æskja fái annað tækifæri til náms. Í anda frjálslyndrar jafnaðarstefnu setur Samfylkingin fram margvíslegar tillögur um úrbætur í félags- og velferðarmálum og bendir á lausnir í brýnum vandamálum sem steðja að. Við viljum að aldraðir Íslendingar njóti virðingar og þakklætis, sanngjarnt samfélag sýnir öldruðum það í verki. Það er ósvinna að aldraðir Íslendingar eyði ævikvöldi sínu í það að berjast fyrir réttindum sínum.

Við ætlum að takast á við fíkniefnavandann, samræma og efla meðferðarúrræði, forvarnastarf og fíkniefnameðferð í fangelsum. Við viljum að ríkið auglýsi störf án staðsetningar til þess að jafna tækifærin á landinu öllu. Við viljum efla hag heimilanna með afnámi stimpilgjalda, sanngjörnu verði á vörum og þjónustu og ókeypis skólabókum í framhaldsskólum. Við ætlum að bæta fyrir vanrækslusyndir ríkisvaldsins í samgöngumálum með auknum fjárfestingum í samgöngum og umferðaröryggi.

Erindi okkar jafnaðarmanna er að skapa þjóðfélag sem tryggir öryggi og lífsgæði með meiri áherslu á umhyggju, aukinn jöfnuð og mildara samfélag. Við munum halda merki frjálslyndrar jafnaðarstefnu og lýðræðis hátt á lofti í kosningunum og hlökkum til að mæta kjósendum í byrjun gróandans og í hressandi vorgolunni. Þetta verður gott vor. — Góðar stundir.