133. löggjafarþing — 89. fundur,  15. mars 2007.

framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum.

669. mál
[11:40]
Hlusta

Frsm. meiri hluta landbn. (Drífa Hjartardóttir) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Sama umræðan kemur alltaf upp á þingi varðandi bændur og framfærslu sauðfjárbænda. Ég verð bara að upplýsa hv. þingmann um að það hefur gerbreyst. Það hefur gerbreyst undanfarin ár. Búin hafa verið að stækka, en mesta byggðaaðgerðin sem við getum gert í rauninni fyrir þessar veiku byggðir okkar er þessi sauðfjársamningur. Ég lít á hann sem mikla byggðaaðgerð. Ef við lítum á svæði eins og Strandir, Norðvesturland, Norðausturland, norðausturhornið, Suðurland og Suðausturland, þá byggir t.d. Suðausturland afkomu sína að mestu leyti á sauðfjárrækt og ferðaþjónustu. Það er bara þannig og ef sauðfjárræktin leggst af í þeim héruðum þá verður mjög erfitt að halda uppi einhverri byggð og í rauninni er sauðfjárræktin sú atvinnugrein sem eiginlega tengir ferðaþjónustuna mest á því svæði. Ég lít þannig á að þetta sé mikil byggðaaðgerð og mikilvægt sé að þessi samningur verði að veruleika og það er afskaplega mikilvægt að bændur geti skipulagt sig fram í tímann og þess vegna dugir ekki að koma með samning í haust sem á að taka gildi um áramót 2008.