133. löggjafarþing — 89. fundur,  15. mars 2007.

framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum.

669. mál
[14:40]
Hlusta

Frsm. meiri hluta landbn. (Drífa Hjartardóttir) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er ýmislegt sem ég get verið á móti í málflutningi hv. þm. Rannveigar Guðmundsdóttur áðan. Eins get ég tekið undir margt með hv. þingmanni. Ég vil fyrir það fyrsta segja að við erum ekki heltekin af neinu valdi.

Þar sem hv. þingmaður var að ræða um matarverðið og verð til bóndans og neytandans, milliliðina sem koma þar að. Það er í raun með ólíkindum hver virðisaukinn verður frá framleiðanda og til neytenda. Vissulega væri mjög gott ef hægt væri að sjá það á matvörunni sem fólkið kaupir hvað fer til framleiðandans og hvað fer til neytandans því það er í sjálfu sér ekki eðlilegt að það verði svona mikill munur sem fer í milliliðina. Samningurinn er einmitt gerður við bændur. Þetta er í raun kjarasamningur við bændur. Þess vegna eru fulltrúar flokkanna ekki að ráðslagast um samninginn heldur eru það bændur, fjármálaráðherra og landbúnaðarráðherra sem gera samninginn.

Beingreiðslurnar fara beint til bóndans, jöfnunargreiðslurnar fara beint til bóndans. Þar er ekkert að fara í milliliðina. Það er líka athyglisvert þegar við ræðum um hátt matarverð á Íslandi að það eru aðeins 5% af íslenskri framleiðslu í matarkörfunni sem við kaupum. Annað er innflutt. Af hverju skyldu þá innfluttu matarvörurnar vera svona miklu dýrari hér en annars staðar? Það er alltaf verið að skella skuldinni á bændur en ég veit að hv. þingmaður gerir það ekki. Hún hefur verið mjög sanngjörn í málflutningi sínum hvað það varðar.