133. löggjafarþing — 89. fundur,  15. mars 2007.

framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum.

669. mál
[15:13]
Hlusta

landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þingmaður gerir mikið úr ráðherraræði. Ég hef litið á mig sem þjón þjóðarinnar í starfi mínu sem landbúnaðarráðherra en ekki herra. Ég hef leitað eftir samkomulagi og oft náð góðri samstöðu um mál á þingi. Það sýnir sig að samstaða ríkir um íslenskan landbúnað. Fyrir það vil ég allt saman þakka.

Hins vegar er það undarlegt sem fram kemur, hér bæði hjá Vinstri grænum og Samfylkingunni, að þeir álíta að í samningsgerð við bændur, sauðfjárbændur, kúabændur og bændur almennt og þess vegna verkalýðshreyfinguna, eigi fulltrúar flokkanna á Alþingi Íslendinga að sitja við samningagerð. Ég væri engum samningi búinn að ljúka ef svo væri. Þar fyrir utan sjá allir að þetta væri mjög óeðlilegt fyrirkomulag. Það er eðlilegt að framkvæmdarvaldið geri samning við stéttarfélög, samtök bænda, við sjómenn og fleiri. Þannig hefur það verið áratugum saman.

Þetta er ný krafa sem sýnir náttúrlega að sósíalistarnir í báðum flokkum, gömlu kommarnir í báðum flokkum, hafa náð völdum bæði í Samfylkingunni og Vinstri grænum. Sannleikurinn er auðvitað sá að blessaður Pútín sjálfur í Rússlandi er framsýnni í efnahagsmálum en þessir flokkar á Íslandi.

Það liggur auðvitað fyrir að þessir samningar hafa skilað sér til bænda. Megnið af þessum upphæðum fara beint til bænda. Neytendur njóta þess. Ég hef kallað aðila vinnumarkaðarins að samningagerð, t.d. í kringum mjólkina. Vikum og mánuðum saman fóru þeir yfir síðasta samning. En hins vegar er hér kominn samningur til Alþingis. Hann verður staðfestur hér og ég vona að um hann ríki mikil samstaða.