133. löggjafarþing — 91. fundur,  16. mars 2007.

framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum.

669. mál
[14:53]
Hlusta

Einar Oddur Kristjánsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hef aldrei nokkurn tímann sakað hæstv. landbúnaðarráðherra um svik í þessu máli, ekki nokkurs staðar, ekki drepið á það. Ég hef hins vegar undrað mig á því hvernig á því stóð að samningsmarkmið ríkisstjórnarinnar við bændur voru eins og þau voru. Ég hef furðað mig á því.

Þessi samningsmarkmið voru aldrei kynnt fyrir þingflokki Sjálfstæðisflokksins og ég veit að þau voru aldrei kynnt fyrir þingflokki Framsóknarflokksins, eða svo er mér sagt. Ég hef spurt hvernig það megi vera að þetta sé sett svona upp og bændum sagt að það sé óumflýjanlegt sem verið er að gera.

Það er nefnilega þannig, virðulegi forseti, að síðast þegar samið var komu fulltrúar landbúnaðarráðuneytisins líka á vettvang með þá heimsendaspá að nú væru alveg að ganga í gildi samningar, sem hétu þá GATT, þeir heita núna WTO, að nú væri verið að falla frá öllum styrkjum og þetta væri alveg handan við hornið. Þetta eru náttúrlega bara draugasögur og er hvergi nálægt því sem er að gerast í heiminum. Þessar viðræður eru allar stopp í dag. Hinir stóru samningar Evrópubandalagsins við bændur um uppkaup á lágmarksverðum gilda út árið 2014. Hvernig stóð á því að það rak svo mikil nauður til að taka þetta út úr samningunum núna á Íslandi, að vera kaþólskari en páfinn? Kannski það. Það er nú oft viðhorfið hjá okkur að vera kaþólskari en páfinn. Það rak engin nauður til þess.

Ég hef verið að hneykslast á þessu, ég hef spurt hvernig það mátti vera. Hvaða nauður rak til þess? Ég hef aldrei látið að því liggja, ekki í einu einasta orði, að hæstv. landbúnaðarráðherra hafi ekki staðið við það sem hann samdi. Aldrei nokkurn tíma ýjað að þessu. Það er mikill misskilningur ef hann heldur það.