133. löggjafarþing — 92. fundur,  16. mars 2007.

starfstengdir eftirlaunasjóðir.

568. mál
[21:37]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Eins og hér kom fram þá er ég í hópi þeirra nefndarmanna sem skrifa undir þetta nefndarálit. En frumvarpið fjallar um starfstengda eftirlaunasjóði.

Þetta er eitt af þeim málum sem tengjast aðild okkar að hinu Evrópska efnahagssvæði enda fylgir hér sem fylgiskjal tilskipun Evrópuþingsins og -ráðsins frá því í júní árið 2003.

Það gildir um þetta eins og margt sem frá Evrópusambandinu kemur að við eigum ekki annarra kosta völ en fallast á þetta þó að í sumum tilvikum séu áhöld um hvort við höfum gengið of langt. Á dagskrá þingsins fyrr í dag var vikið að raforkutilskipun Evrópusambandsins sem kom fram í tilskipun og fyrir þingið á tíunda áratug síðustu aldar. Við vorum þá mörg með efasemdir um að það væri hyggilegt að samþykka þá tilskipun og spurðum hvort ekki væri eðlilegra að leita eftir undanþágu.

Þáverandi hæstv. iðnaðarráðherra, Valgerður Sverrisdóttir, taldi að við gætum ekki fengið undanþágu en nú hefur komið í ljós að svo var. Við þekkjum það t.d. núna með raforkumarkaðinn, ég held að Malta hafi fengið sérkjör hvað þetta snertir og er þá vísað til þess að efnahagseiningin sé smá og sama á að sjálfsögðu við um Ísland. Ég vildi vekja athygli á því að þetta er af sama meiði. Þetta er tilskipun frá Brussel sem við eigum fárra annarra kosta völ en að samþykkja.

Hins vegar er eitt sem ég vildi ræða í þessu samhengi. Það er hugmyndin um starfstengda eftirlaunasjóði, hversu heppilegt fyrirkomulag það yfirleitt er. Í vetur kom fram hugmynd hjá fulltrúum stórfyrirtækja á Íslandi að þau settu á laggirnar starfstengda lífeyrissjóði þannig að öllum starfsmönnum — ég man nú ekki hvaða fyrirtæki það var, var það ekki FL-group sem setti fram þá hugmynd að allir starfsmenn FL-group greiddu inn í starfstengdan lífeyrissjóð?

Þessi umræða fléttaðist síðan inn í fjárfestingarstefnu lífeyrissjóða og ég fyrir mitt leyti hef um það miklar efasemdir að fyrirtæki fái slíkt tangarhald á starfsfólki sínu og ráðstöfun fjármuna þess. Þannig að ég er með ákveðnar efasemdir um þessa hugmynd, um starfstengda eftirlaunasjóði.

Ég held að Íslendingar hafi farið réttu brautina þegar við breyttum lífeyrislöggjöfinni eða grunnlöggjöf um lífeyrissjóð á árinu 1996. Sú löggjöf tók gildi í ársbyrjun 1997. Þá var tekin ákvörðun um að efla lífeyrissjóðakerfið en stefna að því í framtíðinni að færa ýmislegt sem nú er í almannatryggingum yfir á herðar lífeyrissjóðanna.

Það er eitt sem stundum vill gleymast í þessari umræðu. Það er sú stóra spurning hvort hægt sé að geyma peninga. Menn sjá stundum lífeyrissjóði fyrir sér eins og eins konar söfnunarbauka, sparigrísi, sem menn setji peninga í og geymi þar til á þeim þarf að halda. Þannig eru lífeyrissjóðirnir ekki. Lífeyrissjóðirnir þurfa þegar þar að kemur að færa fjármuni til á nákvæmlega sama hátt, þótt leiðin sé önnur, og í gegnumstreymisskattkerfi. Peningana þarf að taka út úr atvinnulífinu og færa þá yfir til lífeyrissjóða og þá þarf atvinnulífið að hafa burði til þess að greiða vexti eða arð til lífeyrissjóðanna.

Það er á þeirri forsendu sem ég hef verið hvatamaður þess að lífeyrissjóðirnir gæti hófsemi í vaxtastefnu sinni. Þeir mega ekki reisa of stífar kröfur á hendur heimilum og fyrirtækjum vegna þess að atvinnulífið verður að standa traustum fótum, stoðir þess þurfa að vera traustar, til þess að það geti risið undir þessari ábyrgð.

Mér finnst menn oft hugsa of þröngt og gleyma því að þegar lífeyrissjóðirnir eru orðnir eins fyrirferðarmiklir í fjármálakerfi þjóðar og lífeyrissjóðirnir okkar eru þá ber þeim að hafa víðan sjóndeildarhring og hugsa um hagsmuni samfélagsins alls, ekki síst þegar vaxtaákvarðanir eru teknar. Ég var andvígur því ákvæði sem sett var inn í lífeyrissjóðalögin á sínum tíma, lögin frá 1996, þar sem segir að lífeyrissjóðirnir skuli ávallt leita eftir hæstu ávöxtun sem byðist hverju sinni að því tilskildu að fjárfestingin væri traust.

Lífeyrissjóðunum ber alltaf að leita eftir hæstu ávöxtun. Þannig hafa vaxtahækkanir líka verið réttlættar. (PHB: Bestu.) Bestu, segir hv. þm. Pétur H. Blöndal og leitar þannig greinilega, eins og ég hef reynt að gera í túlkun þessa ákvæðis, að einhverjum leiðum fram hjá því að alltaf sé leitað eftir hæstu ávöxtun. Besta ávöxtun gæti þá rúmast innan þeirrar skilgreiningar sem ég er að reyna að draga hér upp. Það hafa nú hins vegar ekki allir verið á þessu máli í stjórnum lífeyrissjóða eins og dæmin sanna. Sjónarhornið er iðulega að mínum dómi of þröngt. Hvers vegna er ég að nefna þetta? Jú. Þrengst yrði sjónarhornið hjá hinum starfstengdu lífeyrissjóðum sem er tengt og nátengt fyrirtæki eða starfsgrein, þá væntanlega.

Það má hafa mörg orð um þetta málefni, lífeyrissjóðina og lífeyrissjóðakerfið. En ég sé að fleiri þingmenn hafa óskað eftir orðinu og ég mun hugsanlega taka aftur til máls í þessari umræðu um mjög mikilvægt málefni.