133. löggjafarþing — 93. fundur,  17. mars 2007.

bókmenntasjóður.

513. mál
[10:47]
Hlusta

Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Í tilefni af lokaorðum formanns menntamálanefndar, hv. þm. Sigurðar Kára Kristjánssonar, ætla ég á eftir að þakka honum fyrir ágæta stjórn og forustu í ýmsum málum í menntamálanefnd og vil lýsa því yfir að ástæða hefði verið til að eiga samleið í fleiri málum með þeim ágæta þingmanni, knáum og vöskum sem hann er þegar svo ber til að kreddur og valdstjórn samþingmanna hans ráða ekki gerðum hans í menntamálanefnd og annars staðar á þeim vettvangi þar sem hann hefur haslað sér völl. Það var svo í þessu máli að um það tókst ágætt samstarf í nefndinni sem og um ýmis önnur mál sem við höfum verið svo gæfusöm að ná saman um. Þegar það gerist hefur verið ánægjulegt að sinna nefndarstörfum á þessum vettvangi og satt að segja hefur manni stundum fundist, sem er óvenjuleg tilfinning á þinginu, að maður sé að gera gagn. Svo er auðvitað um þetta mál en þá verður nú að segja eins og er að hér er verið að sameina þrjá sjóði í einn. Um það meginmarkmið eru flestir sammála en lengra nær það því miður ekki.

Það er svolítið furðulegt að vita til þess að sjálfur hæstv. menntamálaráðherra skuli hafa skrifað langa grein sem rataði inn á miðopnu Morgunblaðsins þar sem ráðherrann hrósaði sér af þessu frumvarpi sem meiri háttar átaki í þágu bókmenntanna í landinu og ætlar að veifa því í kringum sig í kosningabaráttunni sem vitni um framsýni og athafnasemi ríkisstjórnarinnar á þessu sviði. En staðreyndin er sú að þegar frumvarpið er orðið að lögum fylgja því þau fyrirheit að fé til hins nýja bókmenntasjóðs sé minna en til þeirra þriggja sjóða sem hann er stofnaður úr, 800 þús. kr. minna fer í þennan eina sjóð en þá þrjá sem fyrir voru, þýðingarsjóð, Menningarsjóð og Bókmenntakynningarsjóð. Þá er ekki talinn sá liður sem í athugasemdum við frumvarpið er sérstaklega tiltekið að eigi að renna í sjóðinn sem er sérstakur fjárlagaliður sem ætlaður er til útgáfumála sem ákvarðanir hafa verið teknar um í menntamálanefnd en þó einkum í fjárlaganefnd til ýmissa verkefna, sumra ágætra og þarfra og annarra sem verða að flokkast undir gæluverkefni og verkefni af þeim toga að þau hafa ekki fengið nægilega faglega umfjöllun, sum hver. Það er ekkert í hendi um það hvert það fé fer og þó að saga þessa fjárlagaliðar og saga styrkveitinga frá Alþingi til útgáfumála sé nokkuð brösótt tel ég að þingið, menntamálanefnd og fjárlaganefnd, eigi að hafa yfir nokkru fé að ráða til að geta fyllt í eyður sem skyndilega myndast eða til að bjarga málum sem annars kynnu að lenda fyrir borð. Ég held að þessi liður sé hvergi í húsi sjóðsins.

Það er um frammistöðu hæstv. menntamálaráðherra að segja í þessu efni að það sem hún gerði var að taka tillögur nefndar sem voru allgóðar og fagmenn höfðu staðið að, fulltrúar höfunda og útgefenda, og skera þær þannig niður við trog að lítið varð eftir nema þessi samdráttur þriggja sjóða í einn. Það sem heyrt hefði til starfsmönnum menntamálaráðuneytisins í þessu efni var auðvitað vanrækt, nefnilega það að fara yfir styrkveitingar til bókmennta og útgáfu á vegum ríkisins, á vegum ráðuneytanna og undirstofnana þeirra allra, og reyna að ná einhverri stjórn og einhverri yfirsýn yfir þau mál í heild. Það er auðvitað ekki gert hér þannig að við hliðina á þessum eina sjóði eru ýmsir aðrir smásjóðir í gangi, ýmsar ríkisútgáfur bóka og rita, ritraðir sem sumar eru aldeilis prýðilegar og eru gefnar út hingað og þangað, smástyrkir sem menn hafa í áskrift í ýmsum ráðuneytum og undirstofnunum þeirra. Þetta er ekkert tekið saman eða reynt að meta í þessu frumvarpi og við réðum ekki við það í menntamálanefnd að þessu sinni að fara yfir það.

Fróðir menn hafa sagt mér að samtals nemi styrkir til þessara verkefna, sem enginn hefur heildarsýn yfir eða metur í samhengi við önnur verkefni, a.m.k. svipaðri upphæð og þeirri sem rennur nú til sjóðanna þriggja og á að renna til þessa eina sjóðs. Það er því ekki ástæða til að fyllast stolti eða hrósa sjálfum sér eins og hæstv. menntamálaráðherra er þó tamt en auðvitað þarf hver að hafa sitt og metur sitt framlag á sínu starfssviði og sín verk eftir því áliti sem menn hafa um eigið ágæti og eftir þeim skammti af sjálfsgagnrýni sem hverjum og einum er í brjóst borin. Það er hins vegar skref í áttina að því sem verða skal sem menntamálanefnd hefur hér sameinast um og menntamálanefnd hefur líka orðið sammála um að minnast með hógværum og kurteislegum hætti eins og hæfir í texta sem heil nefnd semur að benda á þennan augljósa galla að fé er ekki til staðar, með þeirri setningu í nefndarálitinu að nefndin vænti þess, með leyfi forseta, „að við næstu fjárlagagerð verði litið til hins metnaðarfulla hlutverks sem sjóðnum er ætlað að rækja skv. 2. gr. frumvarpsins.“ Þetta þýðir auðvitað að stórefla þarf sjóðinn og setja í hann miklu meiri peninga ef hann á að verða að því gagni sem ætlunin er.

Það háttar svo til að í stað nokkuð vel skilgreinds hlutverks sjóðanna þriggja sem á að sameina í þennan — þeir skipta með sér verkum og síðan eru lög um þá sem tiltaka hlutverk þeirra tiltölulega nokkuð nákvæmlega — þá hefur sjóðstjórn frjálsar hendur og það má vel vera að það sé ágætt. Ég saknaði þess sjálfur að stjórnin skyldi ekki fá einhvers konar leiðbeiningar um það hvernig standa ætti að úthlutun en við treystum þeim aðilum sem tilnefna í sjóðstjórnina til þess að gæta hófs og jafnræðis í þeim efnum og fremja bókmenntir í landinu og útgáfu í landinu eins og þeim best sýnist, en segjum líka í nefndarálitinu vegna þessarar áhyggju að nefndin leggi áherslu á, með leyfi forseta, „að við ákvarðanir um úthlutun og í skipulagi sjóðsins þurfi að gæta þess hlutverks sem fyrri sjóðir höfðu hver um sig, auk þess nýmælis að styrkja útgáfu frumsaminna skáldverka.“

Í sjóðstjórn af þessu tagi er ástæða til a.m.k. að leggja áherslu á að sjóðstjórnin hafi þetta í huga þannig að fé verði eftir til þeirrar útgáfu og þeirra bókmenntaverka sem stundum fara halloka. Ég er hér sérstaklega að tala um hlutverk þýðingarsjóðs sem hefur skipt gríðarlegu máli fyrir útgáfu á þýddum bókum og fyrir opnun til annarra menningarheima sem í því felst, svo miklu máli að ég giska á að a.m.k. helmingur þeirra skáldverka sem hafa komið út í þýðingum væri ekki fyrir hendi ef ekki hefði verið stofnaður þýðingarsjóður á sínum tíma af mikilli framsýni. Það verður auðvitað að gæta þess að þessi stuðningur og þetta menningarframtak haldi áfram í hinum nýja sjóði.

Maður hlýtur auðvitað að hugsa með þessum hætti þegar í ljós kemur að féð er ekki einungis hið sama og í sjóðunum þremur heldur hefur beinlínis verið skorið niður þannig að fyrsta sjóðstjórnin á mjög erfitt verkefni fyrir höndum. Hún þarf þar að auki að gæta þess að það er nýmæli, það er nýtt hlutverk sem þessum sjóði er falið og er merkilegt hlutverk miðað við það sem áður var og það er eins og segir í nefndarálitinu að styrkja útgáfu frumsaminna skáldverka. Útgáfa þeirra hefur ekki notið stuðnings þó að gerð skáldverkanna hafi auðvitað gert það oft og tíðum vegna Launasjóðs rithöfunda og annars stuðnings við höfundana sjálfa. Ef vel er á haldið og fé fæst til getur þetta styrkt mjög útgáfu skáldverka sem af einhverjum ástæðum lenda utan við það að vera í kjörhlutverki á markaði. Bókaútgáfa er auðvitað viðskipti og hlýtur að lúta markaðslögmálum að mestu leyti þó að menn hafi auðvitað framið ótrúleg afrek í því fyrr og síðar að gefa út bækur þvert á öll markaðslögmál liggur mér við að segja en þeir menn hafa líka margir og þau fyrirtæki orðið illa úti og þarf ekki að rekja þá sorglegu sögu sem þar er á bak við. Ef undir þetta ákvæði koma peningafætur gæti það mjög styrkt menn t.d. til að gefa út bækur nýrra höfunda, til að gefa út bækur sem hafa ekki mikinn markað, svo sem ljóðabækur, að ég minnist ekki á leikrit en útgáfa leikrita á íslenskum bókamarkaði er nánast horfin, er nánast aflögð vegna þess að fáir kaupa og þess vegna telja bókaútgefendur sig ekki geta látið fé í það.

Þetta þarf að hugsa áfram. Hér er hvorki hugsað fyrir í peningum né í skipulagi sjóðsins, a.m.k. ekki eins og stendur, að hann geti styrkt metnaðarfull verk á sviði handbóka og þó sérstaklega orðabóka, sem við þurfum svo sárlega á að halda. Sú útgáfa krefst fjár af því tagi og í þeim mæli að það verður erfitt fyrir sjóðstjórn að marka einhvern bás sem sæmandi þykir ef ekki koma til stórauknar fjárveitingar. Ég tel að í raun hefði þurft að vera hér annar sjóður eða a.m.k. sérstök deild í þessum sjóði sem væri ætlað það hlutverk. Útgáfa orðabóka og handbóka, sem þeim eru skyldar, ég á við alfræðiorðabækur og ýmislegt af því tagi, er á jaðri þess að tilheyra bókmenntum. Slík útgáfa á fremur heima í málstefnu stjórnvalda þar sem haldið er utan um íslenska tungu og sótt og varist og þess gætt að á Íslandi eru töluð fleiri tungumál en íslenska í hópum nýbúa. Menn þurfa að sinna því menningarhlutverki sem verður sífellt meira áríðandi, að halda opnum dyrum og gluggum til næstu landa og ekki aðeins þannig að við föllum í hinn ensk-ameríska heim sem af ýmsum viðskiptaástæðum og pólitískum ástæðum stendur opinn heldur höldum sambandi við aðrar menningarheildir í Evrópu og utan hennar.

Ég vil segja að stór galli á þessu frumvarpi er að þetta eru tvö frumvörp í einu. Frumvarp til laga um bókmenntasjóð og fleira stendur á forsíðunni og satt að segja er þetta annars vegar frumvarp til laga um bókmenntasjóð og hins vegar frumvarp til laga um fleira. Það fer illa saman í einu frumvarpi að stofna annars vegar þennan bókmenntasjóð úr þeim þremur sem fyrir voru og hafa síðan sérstakan kafla um afnot af greiðslum fyrir bókasöfnum, sem kemur þessu máli ekki við nema að því leyti að hvort tveggja snertir bækur. Þetta hefði auðvitað miklu fremur átt heima í tveimur frumvörpum. Ég skil ekki enn af hverju hæstv. menntamálaráðherra og starfsmenn hennar í menntamálaráðuneytinu demba þessu saman. Það mætti ímynda sér, ef menn ætla að einfalda hlutina, að demba saman fleiri lagabálkum ef það er meiningin í því að búa til einfaldara Ísland eða auka skilvirkni og hagkvæmni. En þetta er fráleitt því að þessi efni tengjast nánast ekki.

Um afnot af bókasöfnum er það að segja að menntamálanefnd hefur með stuðningi bæði umsegjenda og stuðningi menntamálaráðuneytis að vissu leyti snúið frumvarpinu af þeirri átt sem það stefndi í, að við ættum að fara inn í evrópskar reglur átakalítið. Við höfum gætt þess að halda áfram samstöðu með norrænum þjóðum öðrum og varið það hlutverk og þær forsendur sem þær hafa í sameiningu sett sjóðum af þessu tagi. Það er engin ástæða til að gefa eftir í bili og ekki fyrr en í fulla hnefana í þessu máli.

Í lokin er vert að vekja athygli á því sem menn kunna að reka sig á, að greiðslur fyrir afnot af bókasöfnum eru misjafnar eftir því hvort um er að ræða frumhöfunda eða þýðendur. Þetta er hins vegar ekki nýtt ákvæði í þessu frumvarpi heldur er tekinn upp í frumvarpið sá munur sem áður var í reglugerð. Þó er hlutur þýðenda bættur að því leyti að í reglugerðinni skilst mér, ég hef ekki séð hana sjálfur en fékk upplýsingar um þetta, er miðað við að þýðendur fái einn þriðja af greiðslu höfundar en í frumvarpinu eru þetta tveir þriðju þannig að þetta er skref fram á við fyrir þann mikilvæga hóp rithöfunda sem þýðendur eru.

Ég ætla ekki að hafa þetta lengra. Þetta er orðið nógu langt. Ég þakka aftur fyrir ágæt störf í nefndinni sem var sammála um að gera þær umbætur á þessu frumvarpi sem hægt væri í þeim fljótheitum sem nefndin þurfti að starfa við á síðari hluta þessa þings. Ég vona að hægt verði að stíga fleiri skref í þessu efni á næsta kjörtímabili, strax við næstu fjárlagagerð þannig að frumvarpið öðlist líf og vængi og taki sig til flugs sem lög um að styðja og styrkja íslenskar bókmenntir og menningu.

Forseti. Hér ætla ég að hætta en verð þó að geta þess í blálokin að í frumvarpinu eru ekki tekin upp þau skilyrði sem voru í lögum um Menningarsjóð, að hann skyldi einungis styðja útgáfu á íslenskri tungu. Frumvarpið er að þessu leyti opið og sérstaklega um það fjallað í greinargerð að þetta sé úti og reyndar ekki mikil rök fyrir því færð. Menntamálanefnd var sammála um að það væri í sjálfu sér rétt stefna og ekki ástæða til að útiloka bækur eða rit á annarri tungu frá því að njóta styrkja úr sjóðnum, en það yrði að vera í sérstökum tilvikum þar sem við erum að tala um íslenskar bókmenntir og íslenska tungu. Við nefnum sem dæmi að þau sérstöku og veigamiklu rök sem verði að liggja að baki styrkveitinga úr sjóðnum til rita á öðrum tungum en íslensku gætu t.d. tengst menningarstarfi meðal nýbúa eða tilteknu kynningarátaki íslenskra bókmennta erlendis. Það er álit nefndarinnar.

Ég beini þessu til sjóðstjórnar sem kosin yrði samkvæmt þessum lögum, að ekki eigi að nota fé úr sjóðnum til útgáfu rita á erlendri tungu, hversu merk sem þau eru, nema sérstakar ástæður séu fyrir því. Vísindarit á erlendum tungum gefin út á Íslandi, rituð af íslenskum höfundum sem þekkja íslenskt málefni, eiga allt gott skilið. Það getur þurft að styrkja þau með einhverjum hætti og það getur verið eðlilegt að gera en það á ekki að gera úr þessum bókmenntasjóði heldur með öðrum hætti.