133. löggjafarþing — 93. fundur,  17. mars 2007.

sameining Kennaraháskóla Íslands og Háskóla Íslands.

431. mál
[11:09]
Hlusta

Frsm. meiri hluta menntmn. (Sigurður Kári Kristjánsson) (S):

Frú forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti meiri hluta menntamálanefndar um frumvarp til laga um sameiningu Kennaraháskóla Íslands og Háskóla Íslands.

Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund fjölmarga gesti úr stjórnsýslunni, frá háskólunum, úr fræðimannasamfélaginu og í rauninni úr öllum áttum sem varðar þetta mál. Nefndin fékk jafnframt fjölmargar umsagnir sem nefndarmenn hafa farið ítarlega yfir í tengslum við vinnuna. Fyrir þessu er gerð grein á nefndaráliti meiri hlutans. Ég sé ekki ástæðu til að rekja það nákvæmlega.

Frú forseti. Með frumvarpinu er lagt til að Háskóli Íslands og Kennaraháskóli Íslands sameinist undir nafni Háskóla Íslands og að lögin taki gildi 1. júlí 2008. Fram að gildistöku laganna munu háskólarnir vinna að undirbúningi að sameiningu skólanna samkvæmt sérstakri sameiningaráætlun sem unnin var af starfshópi sem skipaður var af menntamálaráðherra og fylgir frumvarpinu sem fylgiskjal I. Á fundum nefndarinnar hefur komið fram að starfshópnum sé m.a. ætlað að leggja fram tillögur um breytingar á deilda- og skoraskiptingu innan skólans. Í því sambandi ræddi nefndin um stöðu Kennaraháskóla Íslands innan Háskóla Íslands við fyrirhugaða sameiningu og meiri hlutinn leggur áherslu á að Kennaraháskóli Íslands öðlist þar sérstakan sess. Meiri hlutinn telur þó mikilvægt að starfshópurinn um skipulagsbreytingar innan Háskóla Íslands hraði störfum sínum eftir föngum svo að fyrir liggi sem fyrst hver staða Kennaraháskóla Íslands og kennaramenntunar verði innan stjórnskipulags skólans eftir sameininguna.

Meiri hlutinn telur að margvíslegir kostir fylgi framangreindri sameiningu og má þar einkum nefna meginmarkmið frumvarpsins um að efla kennaramenntun. Samstarf og sérfræðiþekking nýtist báðum háskólunum og efli þar með og styrki starfsemi þeirra. Við sameininguna hafi háskólarnir tækifæri til að samþætta og skapa aukna möguleika fyrir rannsóknir á sviði uppeldis- og menntunarfræða. Því er ljóst að samlegðaráhrif verða mikil við sameiningu þessara háskóla.

Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt. Undir nefndarálitið rita auk mín hv. þm. Sigurrós Þorgrímsdóttir, Svanhvít Aradóttir, Kjartan Ólafsson og Sæunn Stefánsdóttir.