133. löggjafarþing — 93. fundur,  17. mars 2007.

vegalög.

437. mál
[16:01]
Hlusta

Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Hæstv. forseti. Ég vil aðeins tjá afstöðu mína. Ég hafði fyrirvara um þetta mál og hann sneri m.a. að því að það væri ekki skylda hjá Vegagerðinni að bjóða út hönnun, viðhald og vegagerð þannig að miðað við þau orð hv. þm. Jóns Bjarnasonar áðan þá vænti ég þess að það gangi eftir að þetta verði lagfært á milli 2. og 3. umr.

Einnig hafði ég nokkrar áhyggjur af því sem varðar svokallaða héraðsvegi, hæstv. forseti, en nú á að heimila að ákveðnir aðilar sem eiga hús á viðkomandi svæðum skuli vera skyldaðir til að greiða helming í lagningu slíkra vega. Þó að ég skilji í sjálfu sér hugsunina á bak við það þá er það hins vegar svo að byggð er sett niður miðað við skipulagslög og skipulag í viðkomandi sveitarfélögum. Það ætti því auðvitað að koma fram krafa frá sveitarfélögum og afstaða sveitarfélagsins varðandi staðsetningu íbúabyggðar, sérstaklega ef um nýbyggingar er að ræða mjög fjarri samgöngukerfi landsins, um það hvernig með eigi að fara og hvaða kvaðir fylgi því að reisa slík býli.