133. löggjafarþing — 94. fundur,  17. mars 2007.

málefni aldraðra.

560. mál
[19:15]
Hlusta

Ásta R. Jóhannesdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir þessar útskýringar. En finnst henni eðlilegt að landlækni sé greitt úr Framkvæmdasjóði aldraðra til að halda utan um vistunarmatið, eins og kemur hér fram? Ég leyfi mér að hafa efasemdir um að það séu eðlilegar styrkveitingar úr Framkvæmdasjóði aldraðra til landlæknisembættisins eins og ýmsar aðrar greiðslur úr sjóðnum, sem ég hef mjög miklar efasemdir um.

Varðandi það sem hv. þm. Mörður Árnason nefndi um fréttina á forsíðu Fréttablaðsins veit ég að ýmsir styrkþegar sem hafa fengið styrki úr sjóðnum hafa ekki haft hugmynd um að þeir væru að fá greiðslur úr Framkvæmdasjóði aldraðra því að þeir sóttu um styrk til heilbrigðisráðuneytisins.

Mig langar í tilefni af þessu að nefna það hér, vegna þess að hæstv. ráðherra var spurð að því áðan hvort hún væri enn að veita styrki úr sjóðnum, að það er stjórn yfir sjóðnum sem samkvæmt lögunum ber að hafa frumkvæði að því hvaða styrki eigi að veita og beina því til ráðherra hvaða styrki eigi að veita. Ég vil spyrja hæstv. ráðherra: Hefur hún haft í hyggju að vera með styrkveitingar án þess að bera þær undir sjóðstjórn? Ég vil gjarnan fá upplýsingar um það áður en umræðunni lýkur hvort ráðherra sé að leggja til styrki úr sjóðnum án þess að bera það undir stjórn sjóðsins eins og segir í lögum um Framkvæmdasjóð aldraðra.